151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

störf þingsins.

[13:26]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Staðan er sú að hundruð barna og ungmenna þurfa að bíða mánuðum saman eftir sálfræðiþjónustu. Formaður Sálfræðingafélags Íslands hefur talað um að hér sé um uppsafnað vandamál að ræða. Mál í bið hjá einkareknum sálfræðistofum sem sinna börnum hlaupa víða á hundruðum, biðtíminn er talinn í mánuðum. Sami formaður segir að þessi staða sé því miður regla frekar en undantekning og segir að vegna langs biðtíma hjá hinu opinbera leiti foreldrar skiljanlega í auknum mæli til einkarekinna stofa þar sem málin hrannast upp og biðtíminn er í einhverjum tilvikum allt að eitt ár. Samkvæmt upplýsingum er biðtími eftir barnasálfræðingi mislangur eftir heilsugæslustöðvum. Á höfuðborgarsvæðinu er hann talinn um þrír mánuðir en annars staðar allt upp undir sex til sjö mánuðir og jafnvel lengri.

Virðulegi forseti. Frá þessu var greint um helgina en í sjálfu sér er ekki um nýja stöðu að ræða. Við erum að ræða um grundvallarþjónustu í þágu barna. Við erum að tala um heilbrigði barna. Það er ástæða til að minna á það einu sinni sem oftar að Alþingi hefur samþykkt lög sem veita heilbrigðisráðherra heimild til að greiða hér úr. En ég myndi líka vilja beina orðum mínum sérstaklega til barnamálaráðherra, sem hefur talað um það og fyrir því að kerfin verði að geta talað saman í þágu barnanna. Ég er honum einlæglega sammála um það en myndi beina því til hans að ríkisstjórnin tali líka saman, barnamálaráðherra og heilbrigðisráðherra, og leysi úr þessari stöðu og úr bráðavanda barna sem bíða mánuðum saman eftir heilbrigðisþjónustu.