151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

stuðningur við fjölskyldur fatlaðra barna í dreifbýli.

740. mál
[13:49]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og vil segja strax í upphafi, áður en ég fer í fræðilegri skýringar á þessu svari, að almennt er ég fylgjandi því að fjármagn fylgi börnum óháð þjónustukerfum. Ég held að það sé eitt af því sem ný löggjöf um farsæld barna muni færa okkur meira út í á næstu árum þegar við förum að sjá innleiðingu þeirra laga, sem tengjast ekki beint þessari fyrirspurn heldur öllum börnum í íslensku samfélagi sem glíma við einhverjar áskoranir. Hvað varðar þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir bera sveitarfélögin ábyrgð á skipulagi hennar og framkvæmd, þar með talið á gæðum þjónustunnar og skipulagi. Þjónustan er veitt af hálfu starfsmanna sveitarfélaga eða af einkaaðilum sem samið er við með yfirumsjón sveitarfélagsins. Sveitarfélaginu ber að tryggja að fötluðu fólki standi til boða stoðþjónusta sem því er nauðsynleg og þá þjónustu á að veita í hverju sveitarfélagi og laga hana að aðstæðum á hverjum stað. Í lögum er m.a. kveðið á um þetta þar sem sérstaklega er átt við þörf fatlaðra barna fyrir umönnun og þjálfun ásamt nauðsynlegri þjónustu við fjölskyldur þeirra. Þrátt fyrir þetta eru aðstæður breytilegar, eins og þingmaðurinn rakti hér, án þess að við séum að rekja einstök dæmi, en eðli máls samkvæmt hafa einstök dæmi komið inn á borð ráðuneytisins.

Svo ég segi það þá eru ýmis atriði sem komið hafa upp í tengslum við umrædd lög, nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem þarfnast endurskoðunar. Raunar er það svo að þegar þau lög voru samþykkt þá vissum við að slíkt myndi koma upp og var það rætt, bæði af þeim sem hér stendur og eins af fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem tóku þátt í samþykkt þeirra laga. Við erum komin af stað með þá vinnu og rétt fyrir mánaðamótin janúar/febrúar var farið yfir allt sem lýtur að þeim atriðum og þeim áskorunum sem upp hafa komið, því sem ekki hefur virkað, því sem þarf að skoða betur og greina álitaefni. Þetta er klárlega eitt þeirra atriða sem þarf að liggja undir í þeirri vinnu. Þetta mál var ekki eitthvað sem núverandi ríkisstjórn lagði fram og kláraði á núll einni í upphafi kjörtímabils heldur hafði langt vinnuferli verið í gangi, langt samráðsferli, sem allir hagsmunaaðilar höfðu komið að, sveitarfélög og stjórnmálaflokkar. Ég held að það sé mikilvægt að huga að þeirri reynslu sem komin er á þetta þegar við fylgjum þessu eftir. Það er margt gott í þessum lögum og okkur hefur tekist margt vel, en það eru þarna atriði sem þarf að taka betur á og þá held ég að sé mikilvægt að gera það með sama hætti, þ.e. að kalla alla til.

En það er líka þannig að það hafa verið verkefni gagnvart landsbyggðinni sem gefist hafa vel. Ég nefni þar til að mynda þróun þverfaglegra landshlutateyma sem ætlað er að sinna samhæfingu, ráðgjöf, gæðamálum o.fl. Það hefur hefur gefist vel og slíkt landshlutateymi hefur verið stofnað á Suðurlandi, í samstarfi við Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, og á Suðurnesjum er unnið að því að setja saman slíkt teymi.

En svo ég endi með því að svara spurningu hv. þingmanns þá tel ég að það komi til greina að við ákveðnar aðstæður fylgi fjármagnið og að meiri sveigjanleiki verði gagnvart uppbyggingu úrræðanna og þjónustu við viðkomandi einstaklinga. En ég er líka svolítið hræddur við það og það þarf að passa að þarna er ákveðin lína. Það er auðvitað svo að við viljum líka tryggja faglega og góða þjónustu við viðkomandi börn og það er hugsunin á bak við allt kerfið. Um leið þarf að vera sveigjanleiki en hann má ekki vera of mikill á ákveðnum sviðum vegna þess að við viljum ekki víkja frá þeirri faglegu þjónustu og þeirri sérþekkingu sem þarf að vera fyrir hendi. Ég tek undir þessa fyrirspurn hjá hv. þingmanni og segi: Þetta er eitt af því sem er undir í þeirri endurskoðun sem nú er í gangi með aðkomu allra hlutaðeigandi aðila.