151. löggjafarþing — 86. fundur,  27. apr. 2021.

fjármögnun á styttingu vinnuvikunnar.

618. mál
[14:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er beint til mín spurningu um fjármögnunina og ég ætla bara að vinda mér beint í að bregðast við með því að segja að áætlaður kostnaður við breytingarnar er mismikill eftir stofnunum og fer eftir eðli starfseminnar og núverandi vaktafyrirkomulagi sem getur verið misjafnt frá einum stað til annars og meðalstarfshlutfalli starfsmannanna. Meginþorri vaktavinnufólks ríkisins vinnur í heilbrigðisþjónustu eða við löggæslu. Er gert ráð fyrir því að tveir þriðju hlutar kostnaðaraukningar við breyttan vinnutíma verði hjá stofnunum heilbrigðisráðuneytisins. Kostnaður ríkissjóðs vegna breytinganna á vaktavinnu hjá stofnunum þess er nú áætlaður um 4,2 milljarðar á ársgrundvelli á verðlagi gildandi fjárlaga. Þetta mat byggist á þeim forsendum að ný stöðugildi verði mönnuð með því starfsfólki í hlutastarfi sem eykur við sig starfshlutfall, ásamt nýráðningum að sjálfsögðu, og að það dragi úr tilfallandi breytilegri yfirvinnu sem nemur 5%.

Þá skal tekið fram að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur ekki upplýsingar um þann kostnað sem fellur til hjá sveitarfélögum sem einnig eru aðilar að þessu samkomulagi. Þá liggur endanlegur kostnaður ekki fyrir hjá þeim sem eru með samninga við ríkið, svo sem í gegnum Sjúkratryggingar Íslands. Gert er ráð fyrir að fjármögnun aukins kostnaðar vegna þessa verði með sambærilegum hætti og gert er ráð fyrir hjá ríkisstofnunum.

Ákveðið var í upphafi árs 2020 að mæta auknum útgjöldum vegna breytinganna hjá ríkissjóði með þríþættum hætti. Í fyrsta lagi með umbótum og betri nýtingu þeirra fjármuna sem þegar eru fyrir hendi innan ramma málaflokka. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir framgang þessa máls að vel takist til með þennan þátt.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að ráðuneytið nýti hluta af fyrirliggjandi útgjaldasvigrúmi í gildandi fjármálaáætlun. Það þýðir að ráðuneytið verður að forgangsraða í þágu þess að ná árangri á þessu sviði. Almennt eru markmið vaktavinnubreytinga í fullu samræmi við tilgang margra verkefna sem þegar eru fjármögnuð í fjármálaáætlun.

Ef betri nýting fjármuna og útgjaldasvigrúm málefnasviða duga ekki til að fjármagna breytingarnar verður í þriðja lagi hægt að nýta fjárheimildir í almenna varasjóðnum í fjárlögum þessa árs sem eru sérstaklega ætlaðar til að mæta auknum útgjöldum sem þessum. Einnig er til skoðunar hvort svigrúm sé innan málaflokka til að nýta fjárheimildir frá liðnu ári sem heimilt er að flytja yfir á yfirstandandi ár.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið lítur svo á að með framangreindum leiðum sé verkefnið fjármagnað að fullu en viðræðum við viðkomandi fagráðuneyti og stofnanir er þó ekki endanlega lokið og á þessari stundu liggur ekki fyrir vægi hvers og eins af þessum þáttum í þessu samhengi. Þá ber að hafa í huga ákveðna áhættuþætti sem geta haft áhrif á framgang verkefnisins, svo sem í hvaða mæli tekst að draga úr yfirvinnu, manna nýjar stöður sem verða til, auk þess að ná fram nauðsynlegri hagræðingu með umbótaverkefnum.

Þegar spurt er um það hversu mörg stöðugildi þurfi að ráða í hjá hinu opinbera þá getum við sagt fyrir ríkið að vaktavinnufólk er um þriðjungur ríkisstarfsmanna í um fjórðungi stöðugilda eða 7.300 starfsmenn í um 5.500 stöðugildum. Það starfar að langstærstum hluta innan heilbrigðis- og löggæslustofnana eins og áður hefur komið fram. Hópurinn er að stærstum hluta konur eða um 80% og er líklegri en aðrir starfsmenn til að vinna hlutastarf. Stytting vinnuskyldu vaktavinnufólks mun að öðru óbreyttu, tek það fram, mynda svokallað mönnunargat sem getur orðið allt að 780 stöðugildi. En eins og áður hefur komið fram gerum við ráð fyrir því að það mönnunargat verði mannað að mestu með því að breytingar verði í starfshlutföllum og við brjótumst út úr því sem við sáum t.d. í kjaradeilu hjúkrunarfræðinga fyrir ekki löngu, þar var mjög algengt að starfsmenn væru kannski í 50% starfi en nær allir síðan að taka á sig tilfallandi aukavaktir þannig að í reynd var starfshlutfallið mun hærra. Við erum að vonast til þess að geta brotist út úr þessu og það komi til með að leysa vandann að hluta. Jafnframt er gert ráð fyrir að umbætur í starfseminni geti lækkað fjölda stöðugilda sem annars þyrfti en ekki er ljóst á þessu stigi hversu mörg stöðugildi mun á endanum þurfa að ráða í. Það verður þó væntanlega eitthvað. Sérstaklega á það við um stofnanir þar sem þorri hópsins er þegar í 100% starfi eins og á við í löggæslu. Við höfum svo sem ekki miklar upplýsingar um stöðuna hjá sveitarfélögunum.

Ég ætla bara að segja það hér, af því að nú er 1. maí fram undan þegar þetta nýja fyrirkomulag á að taka gildi, að við erum með endurskoðunarákvæði 2023 þar sem fara á yfir árangurinn af þessu og á það mun reyna í millitíðinni hvort allir þeir sem að málinu koma eru tilbúnir til að láta dæmið ganga upp. (Forseti hringir.) Ef útfærslan leiðir til mun meiri kostnaður fyrir ríkið en að var stefnt (Forseti hringir.) eru forsendurnar í sjálfu sér brostnar og það mun kalla á einhvers konar breytingu þegar að því kemur.