151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[14:47]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni kærlega fyrir ágæta ræðu. Það voru svo sem ýmis atriði sem mætti velta fyrir sér í kringum umræðuna um stöðu Íslands í Evrópu, mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu og síðan þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu um að undirbúa að hefja viðræðurnar að nýju. Ég hef alltaf undrast það í þessari umræðu, og mig langar til að spyrja hv. þingmann út í það, hversu ofsafengin viðbrögð, liggur mér við að segja, verða víða við hugmyndum af þessu tagi. Ég velti því fyrir mér hvað það er sem veldur þessum viðbrögðum. Er það að einhverju leyti ótti við eitthvað sem menn telja að sé óþekkt? Er það hræðsla meðal ýmiss konar hagsmunaafla um að þau kunni að missa spón úr aski sínum ef af þessu yrði, að þeir sem hafa stóra hagsmuni telji sig einhvern veginn geta ráðið ferðinni betur ef þeir hafa íslensk stjórnvöld ein til að ráðskast með eða ráðgast við? Kann að vera að það sé bara hrein og klár grímulaus hagsmunagæsla sem veldur þessu?