151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[14:49]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég held að það sé algerlega eðlilegt viðhorf hjá fólki af lítilli þjóð að tortryggja ævinlega erlent vald. Ég held að ekki þurfi að velta Íslandssögunni lengi fyrir sér til að sjá að við höfum mörg dæmi um það úr henni að ástæða er til að gjalda varhuga við erlendu valdi og óttast það. Og það er fullkomlega eðlilegt.

Það sem ég held hins vegar að hafi dálítið misfarist er það hvernig Evrópusambandið hefur ekki kynnt sig á Íslandi — nú segi ég Evrópusambandið því að ég held að fólk hafi tilhneigingu til að líta á Evrópusambandið sem einhvers konar heild, að eitthvað sé til sem heiti Evrópusambandið sjálft sem hafi hagsmuni sjálft og ásælist auðlindir sjálft, ásælist auðlindir lítillar þjóðar. Þannig virðist þetta Evrópusamband vera í huga afskaplega margra. Fólk áttar sig þá síður á því að hér er um að ræða samband fullvalda sjálfstæðra ríkja um tilteknar leikreglur á markaði, um tiltekin réttindi og um tilteknar skyldur. Það er ekki svo að hér sé eitthvert valdabákn sem hefur einsleita hagsmuni sjálft (Forseti hringir.) heldur takast á innan Evrópusambandsins ótal hagsmunir og þar þurfum við Íslendingar að vera við borðið.