151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[15:06]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í sjálfu sér fagna því að Viðreisn hefur dustað rykið af þessari umræðu um aðild að Evrópusambandinu. Ég held að það sé ekki tilviljun að það gerist núna. Umræðan var áberandi eftir bankahrunið og nú á að reyna að telja okkur trú um að við komumst ekki út úr Covid-hruninu nema verða hluti af Evrópusambandinu. Ég fagna því að við getum rætt um kosti þess og galla að ganga í Evrópusambandið. Mér finnst, eftir að hafa hlustað á ræður þeirra sem vilja ganga í Evrópusambandið, heldur bágborin rök vera fyrir kostum þess að ganga í sambandið. Það er einna helst minnst á lægri vexti — það eru raunverulega engir vextir í Evrópu af því að það er ekkert að gerast þar — og það er rætt um traustari gjaldmiðil. Svo horfir maður bara einhvern veginn á Evrópu í dag, Evrópusambandslöndin, í samanburði við okkur, hvernig við náðum okkur út úr bankahruninu og hvernig þær þjóðir hafa glímt við afleiðingar þess.

Ég var á Spáni nýlega, eins og frægt er orðið, helst að kynna þar sokkatískuna. Það er land þar sem er 25% atvinnuleysi, 50% meðal ungs fólks. Ég sé að það er allt að drabbast niður þar. Maður horfir á Frakkland sem er u.þ.b. að stefna í það að verða ekki sjálfbært land, eiga ekki fyrir lífeyrisgreiðslum eftir örfá ár. Kaupmáttur í Þýskalandi hefur ekki aukist í um 20 ár, hefur að vísu ekkert dregist saman, en það er ríkið sem einhvern veginn heldur þessu gangandi. Jú, jú, skandinavísku ríkin standa ágætlega. Hlutfall Evrópusambandsríkjanna í hagvexti heimsins hefur dregist verulega saman. Ég er ekki sannfærður um að við eigum að fara þarna inn, bara langt frá því.

Auðvitað kunna að vera ýmsir kostir við það. Við gætum fundið einhverja kosti við að verða eitt fylki í Bandaríkjunum, við gætum reiknað það út. Við fengjum aðgang að skólum í Bandaríkjunum o.s.frv. Ég held einfaldlega að ókostirnir séu miklu fleiri. Það hefur stundum verið talað um að Sjálfstæðisflokkurinn, af því að hann hefur kannski ekki verið mjög hrifinn af að ganga í ESB — að það sé eitthvert samasemmerki þar og að vera einhvern veginn á móti alþjóðasamstarfi. Það er auðvitað fjarri lagi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð verið í forystu í alþjóðasamstarfi Íslands, svo lengi sem ég man. Ég tel þvert á móti að hagsmunum okkar sé betur borgið í því að vera utan sambandsins en geta átt í góðu samstarfi við það. Við erum hluti af EES-samningnum og mér sýnist það duga okkur vel.

Auðvitað er Evrópa okkur mikilvæg, hún er mikilvægt viðskiptasvæði okkar. En heimurinn er miklu stærri en Evrópusambandið og við takmörkum möguleika okkar með því að ganga inn. Viðskiptafrelsi okkar verður ekki með sama hætti, samningsfrelsi okkar ekki með sama hætti. Yfirráð okkar yfir auðlindunum verða ekki með sama hætti. Þetta eru risaatriði. Ég er ekki að segja að það megi ekki ræða þetta. Ég vil endilega ræða þetta. Ég er ekki svo forstokkaður að segja að það sé allt ómögulegt í kringum Evrópusambandið. En eins og Evrópusambandið hefur þróast hefur það svolítið setið eftir í heiminum. Það vantar alla dýnamík í atvinnulíf í Evrópu miðað við það sem er að gerast annars staðar. Þetta er flókið regluverk, íþyngjandi kvaðir, endalaust. Það stefnir í að Evrópa verði ekki samkeppnishæf við heiminn, það er það sem ég óttast. Auðvitað getur það breyst. Auðvitað getur verið að menn sjái ljósið. En það verður að segjast eins og er að mér finnst það blasa við að dýnamíkin í Evrópu er bara ekki mikil hverju sem þar er um að kenna.

Menn hafa líka talað um það og verið frekar ósáttir við það þegar andstæðingar ESB tala um að við værum að afsala okkur fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Auðvitað yrðum við áfram sjálfstæð þjóð þó að við gengjum í Evrópusambandið af því að við gætum tekið ákvörðun um að ganga úr því aftur. Ég held að menn megi ekki rugla því saman við að við séum að tapa sjálfstæði. En við værum vissulega að hluta til að færa fullveldisréttinn annað. Við gerum það auðvitað alltaf að einhverju leyti í alþjóðlegu samstarfi en þarna er samt tekið risastórt stökk í þá átt. Ég er ekki viss um að það gangi vel í þjóðina. Þjóðin er svolítið eins og hún er. Það er líka svolítill sjarmi við hana. Það er auðvitað svolítill Bjartur í Sumarhúsum í henni, það er mikill sjálfstæðisvilji. En það er kannski þess vegna sem við höfum náð svona langt, örþjóð. Það er alls ekki sjálfgefið að svona fámenn þjóð nái að skapa slíkt velferðarríki sem Ísland er. Það er bara alls ekki sjálfgefið.

Það kann auðvitað að verða þannig síðar, sú staða gæti orðið uppi, að hagsmunir okkar gætu legið í því að ganga í samband eins og Evrópusambandið. Ég held að það sé fjarri lagi að svo sé núna en ég fagna engu að síður umræðunni, hv. þingmenn Viðreisnar, og ég held að hún sé mikilvæg. En ég er jafn sannfærður um það að leiðin út úr kreppu, leiðin út úr Covid eða leiðin út úr bankakreppu, er ekki Evrópusambandið. Ég held að öllum ætti að vera það ljóst í dag, ef við horfum á það sem hefur gerst síðustu árin, að við Íslendingar höfum ekki ástæðu til að ætla að það sé nauðsynlegt fyrir okkur núna. Ég vil engu að síður halda umræðunni áfram. Ég hef hlustað á rökin og það eru ýmis rök, það er ýmislegt gott við Evrópusambandið. Ég er mikill Evrópumaður, mér þykir vænt um Evrópu og ég hefði viljað sjá þetta samband allt öðruvísi, að dýnamíkin hefði verið meiri, að menn fengju meira að ráða málefnum sínum meira sjálfir en er núna. Þá yrði miklu meiri kraftur í þessu. En samstarfið er gott og það er mikilvægt og menn eiga að halda því áfram.