151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[15:16]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir ágætisræðu, það var mjög margt gott í henni. Fyrsta spurningin er sú, af því að ég þóttist merkja að hann fagnaði í umræðunni og ég er sammála því að umræðan sé góð, hvort hann styðji þá ekki framgang tillögunnar. Hv. þingmaður nefndi líka að íslenska þjóðin væri svolítið skrýtin og væri að einhverju leyti óútreiknanleg. Er þá ekki við hæfi að leyfa þeirri skrýtnu þjóð að taka þessa ákvörðun sjálf? Nú vitum við að fyrir síðustu kosningar voru uppi loforð, m.a. af hálfu forystumanna í Sjálfstæðisflokknum, um að að sjálfsögðu fengi þjóðin að ráða framhaldinu. Það hefur ekki bólað á því þannig að ég kýs að túlka orð hv. þingmanns á þann veg að hann styðji þetta mál. Þá væri kannski líka hægt að beina sjónum að því sem fram kom í máli hv. þingmanns þegar hann talar um að Evrópa sé stöðnuð og atvinnulífið sé þar drepið í dróma.

Nú vill þannig til að íslenskt atvinnulíf er bundið af öllum sömu reglum og evrópskt atvinnulíf þar sem við höfum gengist undir það að taka þátt í þessu samstarfi. Þá hlýtur maður að álykta sem svo að íslenskt atvinnulíf sé sömuleiðis drepið í dróma og þá er spurningin hvort hv. þingmaður sé orðinn þeirrar skoðunar að rétt sé að losna úr þessum viðjum og undan þeim evrópsku reglum sem hafa slíkar afleiðingar og hætta EES-samstarfinu.