151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[15:46]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér merka þingsályktunartillögu um að taka upp aftur viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Á einhverjum tímapunkti í sögu Íslands og sögu Alþingis hefði þingmönnum þótt ástæða til að fjölmenna í þingsal og taka þátt í umræðunni og fólki jafnvel þótt ástæða til að tjá hug sinn úti á Austurvelli. Nú sitjum við hér í nánast tómum þingsal, virðulegur forseti, og áhuginn virðist vera lítt meiri hjá almenningi úti, enda kemur í ljós í nýrri könnun að meira að segja af þeim sem kjósa þann flokk sem stendur fyrir þingsályktunartillögunni eru eingöngu 40% mjög hlynnt því að ganga í Evrópusambandið. Áhuginn virðist vægast sagt vera lítill. Ég er ekkert hissa á því. Enn sem komið er hef ég ekki heyrt nein haldbær og góð rök fyrir því að Íslandi sé betur borgið sem aðili að Evrópusambandinu en með þeim samningi sem við eigum við Evrópusambandið í dag með EES-samningnum. Þess vegna verð ég að viðurkenna að það kom mér næstum því á óvart að þingflokkur Viðreisnar skyldi dusta rykið af gömlu stefnumáli Samfylkingarinnar, þingsályktunartillögunni sem var lögð fram 2009, og var því miður eina skrefið eða það eina sem þingmenn Samfylkingarinnar þá töluðu fyrir sem útleið okkar út úr kreppunni eftir bankahrunið. Mér finnst það svolítið hjákátlegt, nú þegar við glímum við erfiðleika tengda Covid, að þetta komi upp. Að því sögðu fagna ég því engu að síður að við fáum tækifæri til að ræða um Evrópusambandið og hvort skynsamlegt sé að Ísland gerist aðili að því.

Ég ætla að taka það fram að ég er hrifin af Evrópusambandinu. Ég held að Evrópusambandið hafi gert margt mjög gott og ég held að það sé mjög skynsamlegt að þær þjóðir sem búa þétt saman á meginlandi Evrópu og hafa því miður í gegnum tíðina oft tekist á í hörmulegum styrjöldum séu saman í Evrópusambandinu og vinni saman eins og þær gera þar. Ég held líka að það sé mikilvægt að Ísland sé í góðu samstarfi við Evrópusambandið og Evrópusambandsríkin. En ég tel líka að það fyrirkomulag sem við höfum í dag, með því að vera með EES-samninginn, og vera þar af leiðandi aðili að þeim stóra markaði sem Evrópa býður upp á, sé ofboðslega góð leið fyrir Ísland. Á sama tíma höfum við fullt frelsi til að gera samninga við aðrar þjóðir utan Evrópusambandsins. Við getum þróað okkar samstarf, hvort sem það er í viðskipta- eða fríverslunarsamningum, að öðru leyti sem er auðvitað ekki staðan hjá öðrum Evrópuríkjum sem gera þessa samninga saman í tollabandalaginu Evrópusambandinu.

Virðulegur forseti. Það er auðvitað mjög margt sem þarf að hafa í huga þegar hagsmunir þjóða eru metnir og við eigum auðvitað alltaf að vera að horfa á hagsmuni Íslands og Íslendinga og hvernig þeim verður best borgið. Þess vegna finnst mér ekki ólíklegt að umræðan um Evrópusambandsaðild, eða hvers konar samstarf sé best að eiga við Evrópusambandið, verði uppi um ókomna framtíð. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það. Ég ætla ekki að segja hér og nú að ég verði um aldur og ævi ósammála því að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Ég get alveg viðurkennt að ég vona að staðan verði ekki með þeim hætti, en það er svo margt sem getur breyst í umhverfinu í kringum okkur sem hefur áhrif á okkur og þess vegna þurfum við alltaf að láta þetta hagsmunamat fara fram.

Sú þingsályktunartillaga sem við ræðum hér gengur út á það að hefja undirbúning að endurupptöku viðræðna með því að skipa þriggja manna nefnd að höfðu samráði við þingflokka til að stýra undirbúningsvinnu í samstarfi við einstök ráðuneyti. Ég verð að viðurkenna, virðulegur forseti, að mér finnst þetta mjög flókin framsetning á því sem ég taldi vera vilja Viðreisnar og í raun það sem sá flokkur var stofnaður út á, þ.e. að ganga í Evrópusambandið. Það væri auðvitað eðlilegast að spyrja íslensku þjóðina hvort hún hefði áhuga á þeirri vegferð og stóru mistökin eru auðvitað að það skuli ekki hafa verið gert á sínum tíma árið 2009. Það olli því að þjóðin klofnaði mjög í það að vera alveg hart á móti eða ofboðslega áfjáð í að ganga inn. En ég hygg að þeir þingmenn sem flytja þessa þingsályktunartillögu viti jafn vel og ég það sem birtist okkur reglulega í skoðanakönnunum, þ.e. að áhuginn er bara lítill sem enginn.

Ég verð að viðurkenna að ég sakna þess svolítið að heyra einhvern tala fyrir því að við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu og af hverju. Sú greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni er mjög rýr, svo ekki sé vægara til orða tekið, hvað það varðar að færa rök fyrir því að fara þá leið.

Frá því að ég tók sæti hér á þingi hef ég haft tækifæri til að taka þátt í alþjóðasamstarfi og maður lærir mjög mikið á því að taka þátt í alþjóðasamstarfi. Ég stóð t.d. svolítið í þeirri meiningu að ágreiningur okkar, um það hvort við ættum að ganga í Evrópusambandið eða ekki, væri sá að við hefðum svo lítið um það að segja sem gerist innan Evrópusambandsins, en það hefðu ríkin sem væru innan Evrópusambandsins. Það kom mér svolítið spánskt fyrir sjónir, á einum af fyrstu fundunum eða ráðstefnunum sem ég sótti þar sem voru þingmenn frá Evrópulöndum, að þeir voru að kvarta við þingmenn Evrópusambandsins og skammast yfir nákvæmlega því sama og hafði verið uppi í umræðunni á Íslandi, þ.e. að þingmenn í þessum löndum hefðu ekkert vægi og Evrópuþingið hlustaði ekki og að ekki væri horft til hagsmuna ríkjanna. Ég hugsaði: Já, það er sem sagt sama umræðan óháð því hvort þú ert í Evrópusambandinu eða ekki.

Þegar ég hafði tækifæri til að heimsækja hjarta Evrópusambandsins í Brussel, þegar skrifstofa Evrópusambandsins hér á landi bauð mér, eins og þau hafa boðið sumum þingmönnum til Brussel til að fá kynningu á sambandinu og fá að tala við ýmsa aðila sem fara fyrir mismunandi málaflokkum — einstaklega áhugaverð og upplýsandi ferð — þá áttaði ég mig líka á því hvað Evrópusambandsríkin þurfa að leggja mikið upp úr hagsmunagæslu sinni í Brussel. Ég hafði líka alltaf, kannski í einfeldni minni, skilið umræðu okkar þannig að íslenska þingið þyrfti að hafa starfsmann úti í Brussel til að fylgjast með því sem þar færi fram og við þyrftum að vera mjög upptekin af hagsmunagæslu okkar í Brussel — en það er ekkert út af því að við erum ekki í Evrópusambandinu, það eru bara allar þjóðir ofboðslega uppteknar af þessu. Sendiráðin í Brussel eru alveg troðfull af fólki frá aðildarlöndunum sem er einmitt í þessu, hagsmunagæslu fyrir sín lönd. Þarna myndi því ekki mikið breytast.

Ég ætla líka að hrósa Evrópusambandinu fyrir það sem það gerir almennt í sinni vinnu, þ.e. að það er mjög mikið gagnsæi í störfum þess. Þar af leiðandi getum við ávallt fylgst með því sem fram undan er hjá Evrópusambandinu og þeirri vinnu sem á sér stað áður en kemur til lagasetningar í ýmsum starfshópum og sérfræðingahópum. Okkur er boðin aðild að því. Ef við höfum fram að færa sérfræðinga á viðkomandi málasviði þá er ekkert mál að taka þátt í þessari vinnu.

Að þessu sögðu, og eflaust gæti ég haldið hér áfram lengi, þá held ég að íslenskri þjóð sé best borgið í því fyrirkomulagi sem við búum við núna, þ.e. með þéttu og góðu samstarfi við Evrópusambandið í gegnum EES-samninginn sem hefur fært okkur svo mikið. Á sama tíma þurfum við, eins og við myndum þurfa að gera þó að við værum innan Evrópusambandsins, stöðugt að gæta hagsmuna okkar í Brussel, svo og á öðrum vettvangi.