151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[15:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Eins og sjá má er sá sem hér talar maður kominn yfir miðjan aldur og ég man eftir því úr æsku að í Ríkisútvarpinu, á einu rásinni sem var þá í gangi á Íslandi, var dagskrárliður sem hét Gömlu lögin sungin og leikin. Yfirleitt var þetta afburðaslæm tónlist, oft flutt af þýskum listamönnum en evrópskum yfir það heila. Ég verð að viðurkenna að þegar ég heyrði af þessari tillögu þá datt mér þessi eldforni dagskrárliður Ríkisútvarpsins í hug. Mér þykir aftur á móti afskaplega vænt um að þessi tillaga skuli vera komin fram, eiginlega bara ræð mér ekki fyrir kæti yfir því að hún skuli vera komin fram, vegna þess að hér var ágætur þingmaður áðan, hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson, sem sagði að þeim sem væru á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið fyndist aldrei réttur tími til að skoða málið. Ég hins vegar get ekki hugsað mér betri tímasetningu heldur en akkúrat núna, að þingflokkur Viðreisnar skuli koma út allur sem einn og meitla það í stein að Viðreisn er einstefnuflokkur, hvort sem menn vilja hafa eitt eða tvö s í því. Stefnan er ein. Hún er segulstefna 130, Reykjavík/Brussel. Og hinn einstefnuflokkurinn stekkur upp og eltir sama sjúkrabílinn eins og þessir flokkar gera oft og þvælast hvor fyrir öðrum í popúlismanum. En það er alveg dásamlegt að fá þessa tillögu fram núna og fá fram í þjóðfélaginu alvöruumræðu um kosti og galla þess að ganga í Evrópusambandið.

Flokkurinn sem ég tilheyri er andvígur því að Íslendingar gangi í Evrópusambandið og sjálfur hef ég þá skoðun að það væri nærtækara fyrir okkur að endurskoða EES-samninginn heldur en að fara að leita hófanna um að ganga í Evrópusambandið. Til að opna þá umræðu lögðum við Miðflokksfólkið undir forystu Ólafs Ísleifssonar fram beiðni um skýrslu hér í fyrra, skýrslu um kosti og galla þess ágæta sambands, þ.e. EES-samstarfsins. Til baka kom eftir langa mæðu, herra forseti, skýrsla um kosti og kosti þess samstarf, EES-samstarfsins. Það var enginn galli tíundaður þar, ekki nokkur, þannig að skýrslan var ekki pappírsins virði. En svona fer þetta nú stundum.

Við höfum hlustað á það að þeir sem mæla þessari tillögu bót hafa talað mikið um að við séum eiginlega bara alveg í gættinni á Evrópusambandinu en það skipti okkur öllu máli að komast að borðinu eins og þar er sagt og hafa áhrif. Víst er ágætt að komast að einhverju borði og hafa áhrif en síðast þegar ég vissi, herra forseti, voru þingmenn Evrópusambandsins 705. Það er líklegt að Ísland, Íslendingar, myndu fá tvo til þrjá fulltrúa á því þingi og ég hygg að áhrif okkar innan þessa sambands yrðu svona u.þ.b. jafn mikil og þegar fiskifluga skítur á hvítan vegg, og ég bið forseta að afsaka orðbragðið. En auðvitað er það líka, sem menn vita og hafa séð í gegnum tíðina, framkoma Evrópusambandsins, t.d. við smáríki, bæði Ísland og önnur, hvort sem þau eru utan eða innan sambands. Það er eitt sem ég vil t.d. benda hér á og það eru síðustu tveir samningar milli Íslands og Evrópusambandsins um gagnkvæm viðskipti með landbúnaðarvörur, gagnkvæm viðskipti og þar hefur náttúrlega komið í ljós í þeim samningum og samningaviðræðum til hvers þetta samband var stofnað, Evrópusambandið. Þetta er náttúrlega tollabandalag sem hefur aftur á móti breyst í tímans rás, mest vegna þess að stjórnmálamenn í þessum 26 eða 27 ríkjum, eða hvað þau eru nú, hafa látið eftir völd í hendur skriffinna. Það er þess vegna ekkert undarlegt, herra forseti, að þeir sem helst berja trommu Evrópusambandsins á Íslandi eru fulltrúar stærsta hóps skriffinna á Íslandi og þeir sjá fyrir sér skriffinnanýlendu í Brussel upp á nokkur hundruð manns ef við göngum þarna inn. Þetta er bara stærsti draumur lífs þeirra.

En þetta er ekki það sem við þurfum, herra forseti. Við þurfum ekki að vera í hlutverki einhvers niðursetnings í þessu samstarfi. Þess vegna höfum við lagt áherslu á það, vegna þess að við Miðflokksfólkið erum alþjóðlega sinnuð, og við höfum bent á alþjóðastofnanir þar sem okkur gengur bara takk bærilega að láta rödd okkar heyrast og hafa áhrif. Ég get nefnt Sameinuðu þjóðirnar. Ég get nefnt NATO og fleiri stofnanir. Ég verð að viðurkenna það og lýsa því yfir að við erum líka bara víðsýnni en svo, Miðflokksfólkið, að við viljum einblína á þessa einu álfu. Við vitum að þungamiðja viðskipta, hagvaxtar, er á leiðinni austur, hún er á leið til Asíu. Hún er þar núna. Þar er þungamiðjan í alþjóðaviðskiptum. Og hvers vegna skyldum við fá einhvern þriðja aðila þar sem við höfum ekkert að segja til að semja við þessa stóru blokk fyrir okkur í okkar nafni? Við getum gert það sjálf. Við höfum sýnt það.

Við eigum nærtækt dæmi um það, af því að ég man ekki hversu mörg þau skipti eru þar sem hv. þingmenn Viðreisnar hafa skælt ofan í þennan stól núna í vetur vegna þess að Bretar voru á leiðinni út úr Evrópusambandinu og hvað margt myndi nú hræðilegt koma fyrir þá þjóð þegar hún væri laus undan þessu ægivaldi. Nú er orðið nokkrir mánuðir síðan að Bretar gengu úr Evrópusambandinu, ljósin kvikna enn þá þar, lestirnar ganga, það er nóg að bíta og brenna og viti menn, Bretum hefur gengið töluvert miklu betur heldur en mörgum öðrum að verða sér út um bóluefni til að vinna bug á þeim faraldri sem við erum öll að glíma við. Á meðan fórum við í skjól þess stóra, sem er svo eftirsóknarvert, af því við erum svo lítil, við erum ekki örþjóð, við erum bara sýnishorn, held ég, eftir því sem hv. þm. Guðmundur Andri Thorsson sagði áðan. Við erum bara svo pínulítil og getum svo lítið að við þurftum endilega að teika, þ.e. að hanga aftan í, afsakið, herra forseti, Evrópusambandið í bóluefnisútvegun með þeim afleiðingum sem við höfum séð. Ég sé að formaður Viðreisnar mætir í salinn og ég fagna því gríðarlega.

Ég ætla bara að ítreka, herra forseti, að mér finnst það dásamlegt að Viðreisn skuli opinbera einstefnu sína eins og flokkurinn gerir með þessari tillögu. Mér finnst alveg dásamlegt að það skuli gerast akkúrat á þessum tíma þannig að hægt sé að eiga rökræðu við þann ágæta flokk akkúrat núna í undanfara kosninga. Það verður gaman að fylgjast með hv. þingmönnum Viðreisnar reyna að sannfæra hin 60% í flokknum sínum sem eru ekki á því að ganga í sambandið. Það er bara rúmur helmingur af stofninum, þannig að það verður líka mjög spennandi að fylgjast með hvaða brögðum verður beitt og hvaða rökum verður beitt í þeirri umræðu. En auðvitað eiga íslenskir kjósendur það skilið akkúrat núna í undanfara kosninga að við förum yfir, ekki kosti og kosti eins og í skýrslunni frægu í fyrra heldur kosti og galla þess að ganga til liðs við þetta samningssamband.

Ég sé að eitt dagblað í Reykjavík, eða næstum því dagblað, sem er að birta skoðanakannanir sí og æ og hótar að gera það til kosninga, er einmitt núna með einhverja vog um það að þeim fjölgi sem langar að ganga í Evrópusambandið. Það er omvent við margt annað sem maður hefur séð en það verður spennandi að fylgjast með því líka. En best af öllu er að Viðreisn skuli meitla sig í stein sem einstefnuflokkur með þessari tillögu og ég fagna því.