151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:07]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eftir að hafa hlustað á þessa ræðu hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar þá held ég að sú ræða hafi einmitt dregið fram mikilvægi þessarar tillögu. Ég mun koma að því á eftir í lokaræðu að það er svolítið sérstakt, ég held að ég sé búin að fylgjast með 90% af ræðunum, að heyra þingmenn, sérstaklega Miðflokks og suma hverja hjá Sjálfstæðisflokknum, ræða það sem þeir halda að standi í tillögunni. Það sem nákvæmlega stendur í tillögunni er nefnilega mjög hófsamt. Ég hef sagt það hér að kannski megi gagnrýna okkur fyrir það að fara þessa leið, en tillagan er einmitt til að fræða og upplýsa fólk, eiga samtal hér og m.a. greina kosti Íslands, hvort hag Íslands sé betur borgið með tvíhliða samningum eða í fjölþjóðasamstarfi. Slíka könnun á náttúrlega enginn að óttast. Það er hluti af því sem við erum að tala um, að tryggja það að þjóðin fái ekki bara einu sinni, ef guð lofar, heldur tvisvar að segja álit sitt á Evrópusambandinu og hvort það eigi að halda áfram í fyrsta lagi og síðan, ef sagt er já, að greiða atkvæði um samninginn. Við það á enginn að vera hræddur, síst af öllu þeir sem treystu þjóðinni eins og við gerðum í gegnum Icesave.

Þessi ræða hv. þingmanns dró fram að það þarf að fræða og upplýsa almenning en líka þingmenn. Hér heldur þingmaðurinn því fram og fer með þvílíkt fleipur að þingmenn í Evrópusambandinu, fulltrúar okkar Íslendinga, verði tveir þegar lágmarkið er allt að þrisvar sinnum hærra eða sex og jafnvel fleiri. (Forseti hringir.) Þannig að strax eru þær staðreyndir sem þingmaðurinn slengir fram ekki staðreyndir heldur bara fleipur. Það (Forseti hringir.) undirstrikar mikilvægi þess að við eigum samtal við þjóðina og upplýsum og fræðum þjóðina (Forseti hringir.) um kosti og líka galla þess að vera í fjölþjóðasamstarfi.

(Forseti (GBr): Forseti biður hv. þingmenn um að virða uppsett tímamörk.)