151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:09]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir þetta andsvar. Ég held við séum sammála um eitt. Það er mikilvægi þess að tala um þetta mál akkúrat núna. Það var einmitt það sem fram kom í ræðu minni í byrjun að þess vegna væri ég glaður yfir því að Viðreisn stykki hér fram og stimplaði sig inn sem einstefnuflokkur með því að leggja þessa tillögu fram. Hv. þingmaður sakaði mig um að fara rangt með staðreyndir og ég get alveg kyngt því að hafi ég fari rangt með það að við fengjum tvo, þrjá fulltrúa á þingi Evrópusambandsins, en fengjum sex, þá munar örugglega um þessa þrjá til fjóra þannig að rödd okkar heyrist. En ég held að það sé bitamunur en ekki fjár. Aðrar staðreyndir sem kunna að hafa komið fram í minni ræðu agnúaðist þingmaðurinn ekki út í. Ég fagna því að hún skuli vera sammála mér um að þetta sé akkúrat rétti tíminn til að ræða þetta mál. Jú, jú. Auðvitað hafði ég tekið eftir því, herra forseti, að það væri hálfvelgja í þessari tillögu. Ég hafði gert mér grein fyrir því. Menn vilja ekki standa í það heitu vatni með báðar lappir að þeir kalónist eitthvað, ég hafði gert mér grein fyrir því. Þessi tillaga er náttúrlega tiltölulega meinlaus, herra forseti. Hún drepur engan að mér virðist, ekki fljótt alla vega. En ég segi aftur, ég held að við hv. þingmaður séum bara sammála um nauðsyn þess að við ræðum þessi mál og eins og hér hefur komið fram fagna ég þeirri umræðu og mun taka þátt í henni af heilum hug.