151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:12]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim orðum hv. þingmanns að það sé mikilvægt að við hér ræðum þessi mál og þess vegna hefur Viðreisn sett málið á dagskrá en lætur ekki aðra segja sér fyrir verkum hvað má setja á dagskrá. Þessi ríkisstjórn sem við sitjum núna uppi með setur ekki mál á dagskrá sem henta ekki hennar bakhjörlum og hagsmunahópum sem þar eru. Það má ekki afgreiða hér mál sem Viðreisn hefur lagt fram um gegnsæi í eignarhaldi í sjávarútvegi. Það má ekki ræða hér mál sem Viðreisn hefur lagt fram og sett á dagskrá eins og um jafnt vægi atkvæða. Það má ekki ræða og afgreiða mál sem draga fram aukið gegnsæi, m.a. í verðmati á afla sem kemur á land sem hefur gríðarlega mikla þýðingu á endanum um það hvert verður hið raunverulega auðlindagjald annars vegar og hins vegar verðmæti aflans til þess að útgerðir geti borgað sjómönnunum rétt laun. Allt eru þetta mál sem við höfum sett á dagskrá en fáum ekki afgreidd. Við fengum samþykkt, og ég veit að hv. þingmaður greiddi atkvæði með frumvarpi okkar sem varð að lögum, mál um að niðurgreiða kostnað fólks sem þarf að leita sér stuðnings vegna andlegrar líðanar, vegna þess að við sögðum: Andleg líðan á að vera jafngild líkamlegri. Þingið samþykkti þetta mál allt saman en ríkisstjórnin setur það síðan ekki á dagskrá. Það er líka umhugsunarefni. Við setjum mál á dagskrá en annaðhvort fást þau ekki afgreidd eða framkvæmdarvaldið stoppar þau.

Það sem ég vil spyrja hv. þingmann vegna þessa máls er hvort hann geti ekki verið sammála mér í því að treysta þjóðinni að taka þetta skref, þetta varfærna skref, eftir að við erum búin að kortleggja t.d. (Forseti hringir.) hvort hag landsins sé betur borgið í tvíhliða samningum eða í fjölþjóðasamstarfi, hvort sem það er (Forseti hringir.) á sviði NATO eða Evrópusambandsins eða á öðrum sviðum. Er nokkuð að hræðast?