151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að séra Hallgrímur hafi sagt: Það sem helst hann varast vann, varð nú að koma yfir hann. Vegna þess að hv. þingmaður verður svona sárreiður yfir því sem ég sagði hér áðan — það er stundum sagt að menn verði sannleikanum sárreiðastir — ætla ég að biðja hann um að líta sér nær og í rann síns flokks, þennan ágæta hv. þingmann. Ég man þá tíð, bara nú á undanförnum mánuðum og misserum, að þingmenn Viðreisnar hafa varla tekið svo til máls um flokkinn sem ég tilheyri að ekki sé dregin upp mynd af einangrunarsinnum, mönnum sem fælast alþjóðasamninga og meðan Trump var og hét, herra forseti, var hann gjarnan dreginn upp úr súru og færður inn í umræðuna og yfirfærður á þann málflutning sem við Miðflokksfólkið stóðum fyrir. Ég ætla því að biðja hv. þingmann að passa sig á glerbrotunum þegar hann kastar grjóti úr glerhúsi.

Ég fer ekki af því að það sem hefur verið fyrirferðarmest í málflutningi hv. þingmanna Viðreisnar undanfarna mánuði og misseri er nauðsyn þess að skipta út gjaldmiðlinum, er nauðsyn þess að ganga í Evrópusambandið. Ég hef svo sem ekki lagst í spekúleringar eða rannsóknir á því, herra forseti, hvort eitthvað annað hafi tínst þar með, en hv. þingmaður getur þá bara upplýst mig um það ef hann hefur mikinn áhuga á því.