151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:26]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Við fjöllum hér um þingsályktunartillögu Viðreisnar um að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið með tilteknum aðdraganda. Ástæðan fyrir því að við teljum rétt að gera það er einfaldlega sú að við teljum að staða Íslands í Evrópu og staða Íslands gagnvart Evrópusambandinu sé mjög mikilvæg fyrir gríðarlega margra hluta sakir. Það má segja að aðildin sjálf sé nokkurs konar hattur á margvíslegum og mjög fjölbreyttum markmiðum sem myndu nást eða færast til betri vegar með aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Sjálfur hef ég haft djúpa sannfæringu fyrir því, um margra ára skeið, að Ísland eigi að hafa metnað og dug til að ganga í Evrópusambandið og taka þátt í því stóra og mikla verkefni sem það fæst við. Og þegar ég segi „sem Evrópusambandið fæst við“ þá er ég auðvitað að tala um þær 27 fullvalda sjálfstæðu þjóðir sem hafa bundist þessum samtökum til þess að ná betri árangri saman.

Allar götur frá því 1989 hef ég fylgst mjög grannt með þeirri þróun sem orðið hefur í Evrópu og þeirri vegferð sem Evrópusambandið hefur verið á og þeirri vegferð sem Ísland hefur verið á í tengslum sínum við þessa auknu Evrópusamvinnu. Ég man að mín fyrsta blaðagrein, ég held ég fari rétt með, birtist á aðfangadag 1989. Það hefur sjálfsagt ekki verið mikið efni sem átti að fara í Morgunblaðið á þeim tíma af því að ég fékk heila opnu í blaðinu til að fjalla um EFTA-samstarfið og það sem hugsanlega væri fram undan í samstarfi Evrópuþjóða.

Viðfangsefni dagsins og framtíðarinnar eru með þeim hætti að það er ekkert eitt ríki sem getur ráðið við þau verkefni. Ríkin verða að koma saman til að takast á við verkefnin. Það er það sem Evrópusambandið hefur gert, aðildarríki þess. Þau vilja takast saman á við margvísleg verkefni til að bæta eigin hagsæld, hjálpast að við að ná betri velferð fyrir þegna sína, takast á við stór málefni. Sem dæmi má nefna vísindi, menntun, samkeppnismál, persónuverndarmál og síðast en ekki síst umhverfismál.

Umheimurinn er með þeim hætti að þar fara völd stórfyrirtækja sífellt vaxandi. Má segja að þau séu oft og tíðum orðin ríki í ríkinu. Eini aðilinn sem getur tekist á við það er samstarfsvettvangur þjóða. Evrópusambandið hefur t.d. beitt sér mjög og leggur enn ríkari áherslu en áður á það að takast á við hina alltumlykjandi tæknirisa sem umlykja líf okkar allt. Þar megum við okkar lítils en að sjálfsögðu njótum við ávaxtanna af því starfi og við njótum ávaxtanna af svo mörgu sem Evrópusambandið fæst við. Það er auðvitað gott að njóta ávaxtanna en það er að mínu mati ekki nóg. Við eigum að vera í ávaxtagarðinum og við eigum að hlúa að ávöxtunum okkur sjálfum til hagsbóta. Við eigum að taka á okkur skyldur og við eigum að öðlast réttindi. Það er það eina rétta fyrir okkur Íslendinga að gera.

Við eigum ekki að horfa til Evrópusamvinnunnar í gegnum excel-skjal þar sem krónur og aurar ráða ríkjum og eru alfa og omega alls. Við eigum að líta til Evrópusambandsins sem samstarfsvettvangs fullvalda þjóða og þar eigum við að taka okkur sæti. Við erum um margt gæfusöm þjóð. Hér ríkir velmegun. Við eigum fært fólk á mjög mörgum sviðum og við eigum erindi. Við eigum að ganga hnarrreist inn í slíkt samstarf okkur sjálfum til hagsbóta og til hagsbóta fyrir aðildarríkin öll. Mér finnst það ekki sæmandi fyrir íslenska þjóð að líta eingöngu á sig út frá efnahagslegum mælikvörðum. Friður í Evrópu er ekki sjálfsagt mál. Samheldni í Evrópu er ekki heldur sjálfsagt mál og á köflum sér maður að lítið má út af bregða. Hér eigum við Íslendingar að sjálfsögðu að vera virkir þátttakendur til að tryggja að svo verði áfram. Við getum ekki falið það öðrum, að það sé annarra þjóða vandamál að halda friðinn, að við séum svo lítil, að við séum herlaus og að við skiptum ekki máli í því samhengi. Það er ekki hugarfar sem mér hugnast. Ég vil þess vegna nálgast þetta mál út frá hugsjónum um samstarf og samvinnu okkur öllum til hagsbóta.

Á endanum verður almenningur þessa lands að taka þessar ákvarðanir og það á ekki að koma í veg fyrir að hann fái það tækifæri. Á sínum tíma rituðu 55.000 Íslendingar undir áskorun um að halda ætti samningaviðræðum áfram — hér voru haldnir u.þ.b. tveir tugir mótmælafunda hvern einasta laugardag þar sem það ákall var ítrekað til þingsins og ríkisstjórnarinnar sem þá var — og það er sorglegt að sá vilji skyldi algerlega hafa verið hunsaður. Það er okkur til vansa. Við eigum auðvitað að treysta þjóðinni, treysta almenningi, í stóru máli af þessu tagi. Það er rangt af okkur að kynna málið ekki vel og leggja það síðan fyrir þjóðina til ákvörðunar.

Það er gjarnan talað um að Evrópumálin séu ekki á dagskrá, það sé enginn áhugi fyrir þeim og menn vísa gjarnan til skoðanakannana. Þrátt fyrir allt eru það nú yfir 30% þjóðarinnar, sem aðspurð um það hvort þau vilji ganga í Evrópusambandið eða ekki, svara því játandi, 30% þjóðarinnar. Það er mjög stór hluti og við eigum að leyfa því fólki að taka ákvarðanir, og að sjálfsögðu líka þeim sem eru þeirrar skoðunar að við eigum ekki að ganga í Evrópusambandið. (Forseti hringir.) Þá fáum við það endanlega í ljós hver þjóðarviljinn er. Við eigum ekki að standa í vegi fyrir þjóðarviljanum í þessu stóra máli.