151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:40]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef kannski misskilið könnun Maskínu sem Vísir skrifaði frétt um nýverið en þar kom fram að um 40% af kjósendum Viðreisnar væru mjög hlynnt eða frekar hlynnt inngöngu í Evrópusambandið. Ég verð að viðurkenna að mig undraði það mjög því ég taldi að kjósendur Viðreisnar hefðu mjög mikinn áhuga á því að ganga í Evrópusambandið. Sá litli áhugi sem birtist í þessari könnun kom mér svo sannarlega á óvart.

Ástæðan fyrir því að ég spurði hvort þetta væri ekki helsta stefnumál Viðreisnar er sú að ég er, ég skal bara viðurkenna það, mjög oft sammála hv. þingmanni hér í þingsal og í þingstörfum hans. Ég held að ástæðan fyrir því sé að við erum svona líkt þenkjandi. Það var mjög miður að mínu mati, að Viðreisn hafi verið stofnuð á sínum tíma því að ég held að það góða fólk sem þar sé eigi vel heima innan Sjálfstæðisflokksins. En það sem ég var að ræða varðandi áhugann á Evrópusambandinu og var ein af spurningunum var hvort það væri ekki eðlilegt að þingsályktunartillagan gengi út á það að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þjóðin vildi hefja aftur þessar viðræður um aðild að Evrópusambandinu. Hv. þingmaður veit jafn vel og ég að þegar farið var í þessa vegferð þá fór allt stjórnkerfið að snúast meira og minna um þá vegferð. Ég tel að það hafi verið stærstu mistök þeirrar ríkisstjórnar, vinstri stjórnarinnar sem sat 2009–2013, að fókusa af öllum mætti á Evrópusambandið og í ofanálag að fara þá ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu og kanna hvort það væri raunverulegur vilji þjóðarinnar á þeim erfiðu tímum sem við lifðum þá, að setja allt okkar stjórnkerfi í þá vegferð að ræða um aðild að Evrópusambandinu. (Forseti hringir.) Ég tel að það hafi svo komið í ljós trekk í trekk í kosningum að (Forseti hringir.) áhugi landsmanna á því að ganga í Evrópusambandið er lítill sem enginn.