151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[16:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar og hugleiðingarnar. Ég verð nú að hryggja hv. þingmann með því að ég tel að það hafi verið mikil gæfa að Viðreisn varð til og sem betur fer þá er Viðreisn algerlega sjálfstæður flokkur sem hefur sína eigin dýnamík og sína eigin stefnu sem er í mörgum atriðum gjörólík stefnu Sjálfstæðisflokksins þó að vissulega séu samhljómur þar, eins og er reyndar við flestalla aðra flokka. Ef að er gáð þá eru nú strengir sem liggja á milli allra flokka. En það er auðvitað mjög viðtekin venja að lýsa því sem svo að Viðreisn sé einhvers konar flís úr Sjálfstæðisflokknum. Þannig er það auðvitað ekki þrátt fyrir að það sé auðvitað fólk sem var í Sjálfstæðisflokknum sem er í Viðreisn, en það er líka fólk úr fjöldamörgum öðrum flokkum.

Varðandi áhugann á Evrópusambandsaðild þá held ég að vandinn við alla þessa umræðu sé svolítið sá sem ég lýsti áðan. Umræðan snýst alltaf um aðildarspurninguna og við náum aldrei að víkka umræðuna út í það hvað þetta þýðir. Við erum mjög gjörn á að fara beint í krónur og aura. Ég er a.m.k. eindregið þeirrar skoðunar að þetta snúist ekkert um krónur og aura. Þetta snýst um allt annað sem ég fór mjög vandlega yfir í ræðu minni. Ég hef djúpa sannfæringu fyrir því að Ísland eigi að taka fullan þátt í samstarfi af þessu tagi, (Forseti hringir.) annað sé okkur sem fullvalda og sjálfstæðri þjóð ekki sæmandi. Við eigum að taka þátt í því og taka ábyrgð á því hvernig þessari álfu farnast.