151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[17:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega andsvarið. Ég missti töluna þegar hv. þingmaður var búinn að segja „það er alveg ljóst“ átta sinnum í þessu andsvari og átta sinnum segi ég: Það er rangt, þetta er alls ekki ljóst. En ég skil hins vegar vel hv. þingmann og skoðanasystkini hans sem óttast samningaviðræður. Ég skil núna af hverju sá ótti stafar, auðvitað af því að andstaðan byggir á því að eitthvað óskilgreint sé ljóst og samstaða um þá andstöðu geti rofnað ef íslenskri þjóð verður veitt heimild til þess að fara í viðræður og kanna málið vegna þess að þetta snýst jú um samningaviðræður.

Og talandi um samningaviðræður þá langar mig til að nota það sem eftir er tímans til að ræða aðeins um muninn á framsali og afsali. Hv. þingmanni verður tíðrætt um það að við inngönguna, þegar af verður, muni Ísland afsalar sér hinum og þessum réttindum. Staðreyndin er sú að í samfélagi þjóða, hvort sem það er á vettvangi Evrópusambandsins, NATO, Sameinuðu þjóðanna, Norðurlandasamstarfs, hvar sem er, þegar saman kemur hópur frjálsra fullvalda þjóða sem hafa sameiginlegt markmið og vilja til að ná því saman, þá framselja menn hlutina. Það er enginn að afsala sér neinu. Menn eru að styrkja sig með því að framselja einhverjar heimildir til sameiginlegs samningsaðila sem er sterkari en við erum hvert í sínu lagi.

Mig langar að spyrja, einfaldlega svo að ég skilji, af því að mér finnst mikilvægt að skilja hvaðan hv. þingmaður kemur hér: Gerir hann engan greinarmun á framsali og afsali í þessu samhengi?