151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[17:16]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Þessi umræða hefur verið mjög áhugaverð, kannski ekki síst af hálfu tveggja þingflokka hverra umfjöllun í málinu hefur verið svo mikil þrenódía þjóðernisíhaldssemi með vafasömum réttlætingum að það liggur við að maður hefði þurft að poppa. Einn hv. þingmaður talaði áðan um að þetta mál væri einhvers konar dyggðaflöggun, meðan flokkur hv. þingmanns stundar í raun endalausa og víðtæka dyggðaflöggun í öllum málum hér um bil, þegar flokkurinn finnur einhvers konar ástæðu til að sýna að hann sé meira á móti en allir aðrir. Hjá hinum flokknum sem um ræðir í þessari umræðu eru augljóslega prófkjör. Hér hefur verið algjör skrúðganga þingmanna sem vilja sýna að þeir séu miklu meira á móti en allir hinir og segja ítrekað hluti sem eru fáfengilega rangir. Hér vantar lágmarksvirðingu fyrir staðreyndum og vitsmunum þeirra sem eru að hlusta á ræðurnar. Hlustendur þurfa ekki að vita mikið til að átta sig á því að þessir hlutir eru rangir og hægt að fara betur með upplýsingar.

Ég ætla að nota tækifærið til að flagga mínum eigin dyggðum enda held ég að þetta mál sé einmitt í rétta átt. Það er alveg þess virði að nefna að ástæðan fyrir því að samband okkar við Evrópusambandið er þar sem það er í dag er að miklu leyti ólögmæt, að ég tel, einhliða ákvörðun ráðherra á sínum tíma að hætta samningaviðræðum við Evrópusambandið án þess að það væri tekið fyrir á Alþingi. Þegar fyrirmæli koma frá Alþingi í formi þingsályktunar þá á ráðherra ekki að hætta einhliða við bara vegna þess að honum hentar svo. Aftur á móti var líka ótækt á sínum tíma að fara í þá vegferð að sækja um aðild að Evrópusambandinu án samtals við þjóðina sem myndi enda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta var mjög bratt á sínum tíma. Ég veit ekki alveg hvers vegna lá svona mikið á og þetta var á margan hátt mjög slæmur tími til að leggja í þá vegferð. Í báðum tilfellum, bæði við það að leggja af stað og hætta, var í rauninni verið að láta pólitík þingmanna og þingflokka stíga fram fyrir allar lýðræðishefðir og allt það sem skiptir máli í lýðræðissamfélagi. Þess vegna held ég að það að fara af stað með þetta aftur með þjóðaratkvæðagreiðslu í upphafi ferlisins, eins og lagt er til hér, sé góð hugmynd. Það er góð ráðstöfun, það er rétta leiðin og það er í rauninni það sem hefði átt að gera frá upphafi.

Í þessari umræðu hafa ýmsir haldið fram ýmsu fleipri og ástæða til að taka aðeins á því. Hæstv. utanríkisráðherra talaði um að það væri einhvern veginn vegið að viðskiptafrelsi okkar ef við gengjum í Evrópusambandið. Viðskiptafrelsi er ekki bara mælt í fjölda fríverslunarsamninga heldur mælt í gæðum og umfangi viðskiptanna sem um ræðir. Það er ekki flókið. Bara svo það sé sagt: Við erum ekkert endilega með bestu fríverslunarsamningana þó að við séum með ansi marga. Til að mynda er Evrópusambandið nýlega búið að endurgera fríverslunarsamning við Suður-Kóreu en þegar við fórum til Suður-Kóreu fyrir hönd EFTA höfðu Suður-Kóreumenn ekki minnsta áhuga á því að endurnýja samning sinn við okkur vegna þess að í rauninni höfðum við ekkert að bjóða þeim.

Svo kemur hitt. Þetta mál snýst um að vera utan EES, innan EES eða innan ESB. Ég held að allir sem hafa fylgst eitthvað með Brexit ættu að skilja að vera landsins utan EES er afskaplega vond hugmynd. Það að fara út úr því væri nokkurs konar efnahagslegt sjálfsmorð fyrir Ísland. En að vera innan EES hefur virkað vel, nema hvað að við þurfum alltaf, aftur og aftur, að útskýra fyrir Evrópusambandinu, hvort sem það er Evrópuþingið eða framkvæmdastjórnin, að EES sé til. Hagsmunagæsla okkar gagnvart Evrópusambandinu er ansi mikil vegna þess að Evrópusambandið sjálft hugsar rosalega mikið bara um aðildarríki Evrópusambandsins. Samkvæmt köldu hagsmunamati hlýtur að vera betra að vera alla vega þátttakendur vegna þess að besta leiðin til að hafa engin áhrif er að vera ekki einu sinni í herberginu þegar hlutirnir eru ræddir. Ég myndi reyndar sem lýðræðissinni segja að það væri ágætisviðmið að engin lög séu samþykkt og tekin upp í einhverju landi án þess að það land hafi aðkomu að gerð laganna. Staðreyndin er í dag að við tökum upp fullt af Evrópugerðum. Við gerum það á grundvelli EES-samningsins. Við gerum það sjálfviljug og það er fínt. Það hefur virkað mjög vel en væri enn betra ef við hefðum aðgang og aðild að sambandinu og hefðum getað stundað þá smáríkjapólitík sem við höfum og alla vega getað haft einhvers konar atkvæði, sex atkvæði á Evrópuþinginu, og töluvert mikið að segja í ráði Evrópusambandsins þar sem bæði fjöldi ríkja og fjöldi íbúa í ríkjunum hefur vægi. Einhverjir hafa talað um að við glötum fullveldi okkar ef við förum þá leið. En þá spyr ég: Eru Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Malta ekki með fullveldi? Er fólki alvara þegar það segir svona hluti? (Gripið fram í.) Í alvöru? Mér finnst ljóst að þessi lönd eru fullvalda en eru í öflugu ríkjasambandi þar sem aðilar hjálpast að.

Þá komum við að því sem skiptir mestu máli, sem er kannski réttast hjá þeim sem tala á móti þessu máli: Það er ekki mikill áhugi hjá almenningi úti í samfélaginu á þessu akkúrat núna. Að vísu er því kannski að einhverju leyti um að kenna að stjórnmálastéttin á Íslandi hefur sýnt aftur og aftur að hún hefur ekki sérstaklega mikinn áhuga á viðhorfi almennings til þessa máls. Almenningur hefur aldrei verið spurður. Hér hefur aldrei verið neitt ferli þar sem almenningur er tekinn að borðinu og jafnvel bara grundvallaratriðin um það hvað Evrópusambandið er og um hvað það snýst eru ekki rædd.

Að því sögðu held ég að þetta snúist í reynd um það að innganga í Evrópusambandið væri afskaplega þung þolraun fyrir völd ýmissa sérhagsmunahópa á Íslandi. Margar auðugar valdaklíkur á Íslandi myndu missa spón úr aski sínum við inngöngu. Margir hafa fullkomlega lögmætar ástæður fyrir því að vera á móti inngöngu, að vísu væri afskaplega fínt að heyra þær, þó án þess að þær séu byggðar á augljósum rangfærslum, en það eru margar fullkomlega réttmætar ástæður fyrir því að vera á móti Evrópusambandinu, til að mynda fullt af vondri löggjöf sem hefur komið í gegnum Evrópusambandið undanfarin ár, hrikalega vondri löggjöf. Það er fullkomlega eðlilegt að vera á móti því. En þegar fólk er bara á móti á grundvelli einhverrar, ja, ég veit ekki hvað skal kalla það, kreddu, þá gef ég ekki mikið fyrir það.

Viðhorf Pírata í þessu máli er aðeins öðruvísi en mitt. Ég er frekar augljóslega hlynntur því að við göngum í Evrópusambandið. Ég er reyndar hlynntur því að fara þá leið sem Píratar hafa lagt til allan þann tíma sem Píratar hafa verið til, að við byrjum ferlið á samtali við þjóðina, að byrjum samtalið á grundvelli staðreynda og að loknu því ferli fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla og sú þjóðaratkvæðagreiðsla ákveði hvert framhaldið verður og að stjórnmálamenn hætti að láta eins og þetta sé einkamál þeirra. Ég er fullkomlega sammála því. Það er stefna Pírata í þessu máli. En ég segi: Staðreyndirnar eru alveg til, þær skipta máli og það væri ótrúlega gott fyrir svona umræðu ef við hættum að heyra algjöran rakalausan þvætting þegar verið er að tala um grundvallaratriðin.