151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[17:30]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er að vissu leyti rétt hjá hv. þingmanni, það er miklu meiri yfirþjóðleg ákvarðanataka í stofnanaverki Evrópusambandsins en góðu hófi gegnir. En við sjáum líka að Evrópusambandið hefur farið út af þeirri braut að það séu stofnanir innan hvers ríkis sem taki á öllum málum eins og var hér áður fyrr. Nú eru það í auknum mæli sérstakar sameiginlegar evrópskar stofnanir sem sjá um hlutina, t.d. í persónuvernd, í flugöryggismálum, í samgönguöryggismálum og í fleiri flokkum. Í síauknum mæli þurfum við, á grundvelli EES-samningsins, að velja á milli þess að láta okkar stofnanir einhvern veginn kallast á við stóru evrópsku stofnanirnar eða að fela Eftirlitsstofnun EFTA enn meira hlutverk og yfirleitt án þess að mikið meira af peningum fylgi. Þriðji möguleikinn sem hefur verið farinn, í tilfelli ESMA og fleiri skammstafana sem ég hreinlega man ekki í augnablikinu, er að láta evrópsku stofnanirnar ráða með beinum eða óbeinum hætti. Það er áhyggjuefni að þetta skuli vera að færast í aukana vegna þess að mér finnst mikilvægt að ríki fái að hafa beinni áhrif á sín mál. En við munum ekki geta kvartað yfir því á meðan við höfum nákvæmlega núll atkvæði innan Evrópusambandsins. Við getum í besta falli tuðað og við erum ekki einu sinni að því í dag vegna þess að hagsmunagæsla okkar í Brussel býður hreinlega ekki upp á það. Þó svo að það sé margt ágætt fólk sem vinnur við það þá höfum við bara hreinlega ekki pólitíska vægið.