151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[17:32]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar frá Viðreisn sem snýst um endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Ég verð bara að segja alveg eins og er að þessi umræða á miðjum Covid-tíma er algjör tímaskekkja. Fyrir einhverjum tugum ára hefði ég kannski getað kvittað upp á það að við færum í samningaviðræður við Evrópusambandið til að tékka á því hvað við fengjum út úr því. En eftir að hafa verið í samtökum sem heita EAPN, Evrópusamband gegn fátækt og félagslegri einangrun, og hafa farið með þeim samtökum til Brussel á ráðstefnu um fátækt í Evrópu, áttaði ég mig á því hversu gífurlegt bákn Evrópusambandið er. Mér datt í hug furðulegt kosningaloforð fyrir næstu kosningar, alveg fáránlegt loforð, sem gæti verið á þessa leið: Báknið burt. Göngum í Evrópusambandið. Það er auðvitað alger steypa vegna þess að ekki er til meira bákn sem þenst út en Evrópusambandið.

Á þessari fátæktarráðstefnu í Brussel komst ég að því hversu víðtæk og ill fátæktin er í Evrópu. Ég þekki til hennar hér á landi en þarna úti var ástandið margfalt verra að mörgu leyti. Aðstöðuleysið og vonleysið stakk mig svakalega. En það sem stakk mig mest var að á þessum tíma vorum við að mótmæla hér á Íslandi og fannst sjálfsagt að mæta til að mótmæla friðsamlega. Á miðri ráðstefnu í höll fátæktarráðstefnunnar, gullhöll, höll úr gulli og marmara, í Brussel — það var svolítið absúrd að vera þar á ráðstefnu um fátækt með fólki alls staðar úr Evrópu sem lifði virkilega við fátækt — datt mönnum í hug að nú skyldi farið að höfuðstöðvum ESB og mótmæla fátækt. En þá var rekið upp harmakvein. Það var ekki hægt. Það þurfti að sækja um leyfi til að mótmæla. Það þurfti að gera það nokkrar vikur fram í tímann, tilkynna nákvæmlega hvenær og hvar og hvernig. En okkur sem vorum þarna, Íslendingum og fleiri, sérstaklega Norðurlandabúum, datt ekki í hug að fara eftir því og við ákváðum að skunda af stað að höfuðstöðvum Evrópusambandsins og mótmæla, sama hvaða afleiðingar það myndi hafa. Við hvöttum alla til að koma en það var bara minni hlutinn sem þorði. Stór hluti fólksins sem bjó við fátækt í Evrópusambandinu þorði ekki að fara og mótmæla vegna þess að þau höfðu ekki leyfi. Við hin fórum og mótmæltum og það var svo sem ekkert gert. Þetta var í lagi, það reyndist ástæðulaust að óttast, kannski vegna þess að við vorum svo fá, kannski vegna þess að mönnum fannst ekki standa ógn af þessum fámenna hópi. En þetta varð til þess að ég fór að kynna mér hvernig Evrópusambandið er, hvernig þetta bákn er. Það sannfærði mig líka um það að ef við sem lítil þjóð gengjum þar inn yrðum við maurinn í návist þess risastóra bleika fíls sem Evrópusambandið er og það væri lítill vandi að kremja okkur.

Það er annað sem á líka að sýna okkur fram á það hvernig Evrópusambandið er og það er Bretland, hvernig Bretland hefur verið að reyna að komast út. Bretland gekk í Evrópusambandið, að því er virðist á barnalegum forsendum, í einhverjum unglingagalsa, en virðist hafa fullorðnast þarna inni. Þeir ákváðu að fara út, sem á örugglega eftir að verða þeirra gæfa, ég efast ekki um það, en þá byrjuðu aldeilis vandræðin. Við höfum fylgst með stríði Breta við að komast út úr þessum ósköpum, það hefur ekki gengið þegjandi og hljóðalaust. Við höfum t.d. verið að tala hér um fiskveiðimálin. Við sjáum hvernig Bretar voru búnir að missa öll völd á fiskimiðum sínum, ofveiði, höfðu enga stjórn á því. Svo þegar þeir fara út og ætla nú aldeilis að fara að taka stjórn á sínum fiskveiðimálum þá er rekið upp harmakvein. Danmörk, Belgía, Holland og Frakkland, allir reka upp vein. Enginn vill gefa eftir það sem þeir höfðu fengið innan lögsögu Bretlands. Og það hefur líka komið í ljós með samninga ESB við Noreg og Svalbarða að þar vill Evrópusambandið halda öllum þeim réttindum sem það hafði fengið í gegnum það að Bretland var inni. Það stefnir í svakadeilur út af makríl og fleiri fisktegundum við Evrópusambandið, Noreg, Bretland. Eins og við höfum séð mun Evrópusambandið ekki gefa nokkurn skapaðan hlut, ekki þumlung, eftir í þeirri baráttu.

Það er svolítið furðulegt í þessu öllu að síðan hefur verið bent á að þessar þjóðir, Grikkland, Ítalía, Spánn, séu í góðum málum innan Evrópusambandsins sem ég tel ekki vera. Við vitum hvernig Grikkland fór eftir hrunið. Það er ýmislegt við ESB að athuga. Við erum með EES-samninginn og því miður tel ég vera kominn tíma til að taka upp viðræður um að við séum ekki að taka þessa samninga inn á færibandi án þess að hafa neitt um það að segja. Ég er ekki á móti því að vera í EES en ég er á móti því að við séum að taka við alls konar lögum og reglugerðum á færibandi, líka lögum og reglum sem koma okkur í sjálfu sér ekkert við. Við eigum að fara að breyta þessu vegna þess að það er okkur eiginlega til vansæmdar og skammar að við skulum ekki ráða því meira sjálf hvernig við tökum á þessu.

Að vera í Evrópusambandinu er eins og að velja örfáa bestu molana, það eru kannski örfáir góðir molar, en til þess að fá þessa góðu mola þurfum við einnig að borða þá vondu, jafnvel þá stórskemmdu, og það held ég að sé ekki gott. Ég mynd líka vilja ræða Schengen-samstarfið. Við fylgjumst vel og vendilega með glæpagengjum sem koma til Evrópu en gleymum öllum þeim glæpagengjum sem geta farið frjáls fram og til baka um Evrópu. Þetta eru hlutir sem við þurfum að ræða fyrir utan bóluefnasamninga og Covid sem komið hefur verið inn á hér. En ég tel að við höfum byrjað á öfugum enda, að við hefðum átt að byrja á því, ég tek undir það, að spyrja þjóðina hvort hún vilji ganga í Evrópusambandið. Það væri mun eðlilegra að spyrja að því fyrst. Síðan gætum við þá tekið upp aðildarviðræður ef þjóðin vill ganga í Evrópusambandið.