151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[17:43]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða um tillögu okkar í Viðreisn um endurupptöku viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Ég tel umræðuna um þessa tillögu einmitt sýna, ekki síst þegar maður hlustar á málflutning þeirra sem eru algerlega á móti Evrópusambandinu, sama hvað tautar og raular, hversu nauðsynleg þessi tillaga er. Menn hafa hér markvisst, af ásetningi eða bara af þekkingarleysi, farið með fleipur, trekk í trekk, allt frá því að tala um að við fáum bara einn eða tvo þingmenn yfir í að fara að tala um það dellumakerí að erlend fiskiskip verði hér um alla lögsögu. Það er algjörlega rangt. Þeir sem þekkja til reglna Evrópusambandsins, m.a. um hlutfallslegan stöðugleika sem byggist á veiðireynslu þjóða, sjá allir, nema þeir sem eru í einhverri hatursorðræðu, liggur mér við að segja, út í Evrópusambandið, að við Íslendingar munum halda áfram að stjórna og veiða í lögsögu okkar en ekki aðrir. Þetta er dæmi um það sem sýnir nákvæmlega fram á tilgang þessarar ályktunar. Hún snýst fyrst og fremst um það að við förum af stað við að undirbúa einstök ráðuneyti, undirbúa upplýsingar, kortleggja hvar hagsmunum Íslands er best borgið, hvort það sé með tvíhliða samstarfi, sem er orðin mantran hjá utanríkisráðherra, eða með því að fara í gegnum fjölþjóðasamstarf sem hefur sýnt sig í sögu þjóðarinnar, í gegnum NATO og Sameinuðu þjóðirnar, Norðurlandasamstarfið, svo ég tali nú ekki um EFTA og EES-samninginn, að hefur alltaf verið farsælt skref fyrir íslenska þjóð. Það hefur alltaf sýnt sig að það hefur verið farsælt fyrir íslenska þjóð að taka þátt í staðinn fyrir að vera hliðsett. Út frá efnahagslegum stöðugleika, félagslegum stöðugleika, menningarlegum áhrifum, æskilegum áhrifum. Sagan sýnir að þetta yrði farsælt skref en það þarf, og við viðurkennum það, að auka umræðu um aðildina í samfélaginu, kosti hennar og galla. Það á enginn að vera hræddur við það, ekki við í Viðreisn, aðrir flokkar sem eru hlynntir þessari leið eða þeir sem eru algjörlega á móti Evrópusambandinu. Það er ekki þannig í íslensku samfélagi að það séu einstaklingar, hvort sem þeir heita Guðni Ágústsson, Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn, Vigdís Hauksdóttir eða Hallur Hallsson, sem ráða því hvað við setjum á dagskrá. Það kemur ekki til greina.

Ég undrast það mjög, og þó kannski ekki, að utanríkisráðherra sagði það alveg skýrt í 1. umr. um málið að hann væri bara á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál. Við erum ekki að tala um samninginn, við erum að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort spyrja eigi þjóðina að því hvort halda eigi viðræðum áfram. Það var einu sinni þannig árið 2009 að flokkur utanríkisráðherra greiddi atkvæði með þjóðaratkvæðagreiðslu, við upphaf málsins, sem ég tel að hefði verið mjög skynsamlegt skref — ég greiddi atkvæði með því á sínum tíma, af því að ég treysti þjóðinni; eins og ég treysti þjóðinni í Icesave þá treysti ég henni í því. Ég ætla ekki að vera sú sem ákveður hvað þjóðin má ekki tala um eða greiða atkvæði um eða ekki, sérstaklega ekki þegar kemur að slíku risahagsmunamáli fyrir okkur Íslendinga sem tengist einmitt opnu, frjálsu og markaðsdrifnu félagslegu kerfi, efnahagslegum stöðugleika. Þetta hefur aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu margsýnt og ég efast ekki um að við fengjum þetta líka í gegnum Evrópusambandið.

Umræðan hefur því dregið fram marga áhugaverða fleti, mjög kunnuglegar ræður hafa verið fluttar, ræður sem maður hefði kannski getað sagt sér að yrðu fluttar hér. En það er alveg makalaust að það var enginn sem þorði að tjá sig um innihaldið. Af hverju ekki að spyrja þjóðina? Ég hef fengið spurningu um það frá mjög hörðum Evrópusambandssinnum af hverju við værum að fara þessa leið. Það er af því að ég trúi því, eins og ég trúði 2009, að það sé betra í svona mikilli vegferð að hafa þjóðina með, hafa umboð frá þjóðinni, að það muni styrkja ferlið. Þessi tillaga gengur út á það að ef sú þjóðaratkvæðagreiðsla verður samþykkt fái þjóðin a.m.k. tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, þessa og síðan aðra ef og þegar samningar nást við Evrópusambandið. Það er það tækifæri, það svigrúm, sem við í Viðreisn viljum veita þjóðinni en ekki láta einhverja einstaklinga sem tilheyra íhaldsflokkum innan húss eða utan ráða því hvað við setjum á dagskrá stjórnmálanna.

Svo eru menn að leika sér að tölum til að ýta undir falsfréttir, til að vekja hjá þjóðinni einhver tilfinningaviðbrögð. Við missum allt viðskiptafrelsi — það kemur ekki á óvart. Evrópusambandið er að því leyti til tollabandalag, það á ekki að vera ný frétt fyrir fólk. En hvað felst í viðskiptafrelsi? Viðskiptafrelsi felst í miklu meiru en því einu að gera viðskiptasamninga, fríverslunarsamninga. Við horfum á Dani, þessa miklu hönnunarþjóð. Það skiptir Dani máli að semja við þjóðir. Búa Danir við skert viðskiptafrelsi? Þjóðverjar, með alla sína bílaframleiðslu og iðnaðarframleiðslu — er viðskiptafrelsi Þjóðverja skert? Þar skiptir máli hvernig þjóðir beita sínu frelsi. Það er áhugavert, talandi um tölur, að sjá að við Íslendingar höfum gert 32 samninga. Þar af höfum við gert 27 samninga, fríverslunarsamninga, í gegnum EFTA eða EES-samninginn. Íslendingar hafa sjálfir gert Hoyvíkur-samninginn og samninginn við Grænlendinga. Utanríkisráðuneytið hefur sem sagt treyst sér til að gera tvo til fimm samninga og það heitir að nýta hið mikla sjálfstæði og fullveldi. Ég spyr bara: Treystir utanríkisráðherra sér ekki til að semja? Kann hann ekki að nýta svigrúmið? Hvar er síðan þetta hefta viðskiptafrelsi innan Evrópusambandsins? Hvar er það? Evrópusambandið hefur gert 55 samninga. Við erum með 32, þar af 27 þar sem við erum að halda í, að teika, ef við slettum, EFTA og EES. Við þorum að semja sjálf við fimm aðila. Getur verið, eins og ég segi, að utanríkisráðherra kunni ekki eða vilji ekki semja, þori ekki að semja, eða erum við kannski ekki efst á lista allra þessara þjóða í samningagerð? Getur verið að hagsmunum Íslands sé betur borgið með fleirum í stað þess að vera einir? Getur verið að það sé málið? Það er það sem við í Viðreisn viljum m.a. vinna að og stuðla að, þ.e. að þjóðin verði upplýst um, að það verði kortlagt, hvort hagsmunum okkar Íslendinga sé betur borgið í fjölþjóðasamstarfi eða í tvíhliða fríverslunarsamstarfi. Ekki virðist ríkisstjórnin vilja nýta sér það svigrúm sem hún hefur eða þá að hún kann það ekki. Það sem við leggjum áherslu á er að varðveita svigrúmið, halda opnuninni í staðinn fyrir að loka eins og stjórnarflokkarnir vilja og aðrir flokkar sem eru á móti Evrópusambandinu.

Við segjum: Við treystum þjóðinni til að stíga þetta skref. Ef hún segir já einu sinni getur hún aftur ákveðið hvort samningurinn sem næst sé henni hagfelldur eða ekki. Norðmenn hafa fengið tækifæri tvisvar, þeir hafa tvisvar fellt með 20 ára millibili, en ríkisstjórnir Norðmanna hafa treyst þjóðinni til að taka afstöðu. Alvarlegra er það nú ekki. Hins vegar er alvarlegt að upplifa vantraust og vantrú íhaldsafla hér á þingi sem utan hvað það varðar að veita þjóðinni á endanum þetta vald. Við treystum þjóðinni. Við teljum þetta mál vera mikilvægt til skemmri og lengri tíma fyrir íslenska þjóð, unga sem aldna: Núna fyrir Ísland.