151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[17:56]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hjó eftir því í umræðunni að talað var um að 30% þjóðarinnar vildu fara í þessar aðildarviðræður. Ég myndi þá segja að 70% væru hinum megin á ásnum. Þess vegna myndi ég segja að það hefði verið mun skilvirkara ef við hefðum farið út í það að spyrja þjóðina að því hvort hún vildi ganga í ESB. Það hefði þess vegna verið hægt að spyrja að því í framhaldinu hvort hún vildi þá hefja viðræður. Það hefði verið betra að fara þá leið. Það hefði kannski líka verið betra að þingið drægi þessa þingsályktun til baka. Meðan staðan er sú að 70% virðast ekki hafa áhuga á þessu en 30% virðast vera þarna inni þá get ég ekki séð hvernig við gætum réttlætt það að vera að fara í samningaviðræður með öllum þeim kostnaði og því veseni sem því fylgir. Það væri einhvern veginn tímaskekkja. Er hv. þingmaður ekki sammála mér um að það væri eiginlega sóun á tíma á meðan staðan er svona?