151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:01]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tækifærið til að taka þessi mál á dagskrá hér í dag og raunar í síðustu viku. Í sjálfu sér er áhugavert að fylgja málinu síðan eftir í þingnefnd eftir atvikum. Ég velti hins vegar fyrir mér, bara í ljósi þess sem ég les út úr ræðu hv. þingmanns og greinargerð með tillögunni, tveimur spurningum. Önnur spurningin er sú, bara forvitnilegt að vita það og hefur kannski einhver áhrif á það hvernig við metum tillöguna sem liggur fyrir um þetta núna, hvernig hv. þingmaður metur það hvers vegna aðildarferlið, sem vinstri stjórnin 2009–2013 hóf í þessum efnum, sigldi í strand. Hvert er mat hv. þingmanns á því að það ferli, sem var hafið í upphafi kjörtímabils vinstri stjórnarinnar 2009–2013, rann út í sandinn — og það rann út í sandinn áður en kom til kosninga, bara þannig að það sé rifjað upp?