151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

endurupptaka viðræðna um aðild að Evrópusambandinu.

53. mál
[18:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég veit reyndar ekki alveg hvaða öngstræti hv. þingmaður er að tala um. Staðan er náttúrlega sú að undanfarin átta ár hefur enginn litið svo á að við værum í neinum viðræðum við Evrópusambandið og það hafa ekki verið neinar viðræður við Evrópusambandið í átta ár eða jafnvel lengur. Það sem ég er að reyna að kalla eftir er kannski það sem hv. þingmaður kom inn á að hluta til. Ástæðan fyrir því að málið sigldi í strand á kjörtímabilinu 2009–2013 var auðvitað sú að það var enginn sérstakur stuðningur við málið. Það var enginn sérstakur stuðningur við það í þáverandi ríkisstjórn, hún var alveg tvíklofin í þessu og stjórnarandstaðan að stærstum hluta til á móti ferlinu. Ályktunin sem ég dreg af þessu er að það sé frekar óskynsamlegt að fara út í svona leiðangur nema það sé sæmilegur pólitískur stuðningur og pólitískur þungi á bak við ferlið. Í svona ferli þarf að taka fullt af ákvörðunum sem geta verið erfiðar og geta reynt á pólitíska niðurstöðu í málum. Og ef farið er af stað, án þess að einhver pólitískur stuðningur sé við það, þá held ég að það fari bara eins og það fór veturinn 2012–2013 þegar aðildarferlið var sjálfdautt löngu áður en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við.