151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

undirritun og fullgilding valfrjálsrar bókunar við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

398. mál
[18:09]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um undirritun og fullgildingu valfrjálsrar bókunar við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Ég mæli fyrir þessari þingsályktunartillögu fyrir hönd hv. þingkonu, Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, sem er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, vegna þess að ég var í fæðingarorlofi. Ég lagði þessa tillögu fram á 147. þingi, 148., 149. og á 150. þingi, sem var síðasta þing, og er nú að mæla fyrir henni í fimmta sinn. Það er gaman að segja frá því að á 149. þingi, á þarsíðasta þingi, fékk þessi þingsályktunartillaga ágæta umfjöllun í utanríkismálanefnd þar sem komu margir gestir. En einhverra hluta vegna var ekki hægt að klára hana, enda hefur hún sofnað í nefnd þrisvar sinnum hingað til. Vonandi fær hún afgreiðslu hér í fimmta skiptið sem hún er lögð fram.

Alþjóðasamningur um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem ég mun héðan í frá kalla samninginn til að auðvelda mál mitt, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 16. desember 1966, undirritaður fyrir Íslands hönd 30. desember 1968 og fullgiltur 22. ágúst 1979. Í inngangsorðum samningsins segir að þau ríki sem séu aðilar að samningnum hafi í huga að viðurkenning á meðfæddri göfgi mannsins og jöfnum óaðskiljanlegum réttindum allra manna sé grundvöllur frelsis, réttlætis og friðar í heiminum. Í inngangsorðum samningsins viðurkenna aðildarríki hans að sú hugsjón að menn séu frjálsir og óttalausir og þurfi ekki að líða skort rætist því aðeins að sköpuð verði skilyrði til þess að allir geti notið efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda, jafnt sem borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda. Með fullgildingu samningsins á Íslandi var ákveðnum efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum mannréttindum veitt vernd sem þau höfðu ekki notið áður.

Með fullgildingu samningsins var stigið mjög stórt skref í sögu mannréttindaverndar hérlendis.

Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 2008 var samþykkt valfrjáls bókun við samninginn sem fól í sér stofnun kærunefndar sem starfar samkvæmt samningnum og hefur úrskurðarvald gagnvart samningsaðilum um brot gegn ákvæðum samningsins. Vinna við bókun þessa hefur staðið yfir síðan á 10. áratug síðustu aldar, en eftir að hún var samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna hófst undirritun árið 2009 og síðan þá hafa 49 ríki undirritað bókunina. Þar af hafa 24 ríki gerst aðilar að henni. Kæruleiðin sem kveðið er á um í bókuninni hefur verið virk síðan 2013 og hafa nú fyrstu úrskurðir fallið.

Árið 1979 fullgilti Ísland tvo alþjóðasamninga Sameinuðu þjóðanna. Þar var annars vegar um að ræða alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og hins vegar um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Samhliða fullgildingu alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi var valfrjáls bókun fullgilt við samninginn sem kom á fót kærunefnd og nefnist hún mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Nefndin starfar þó aðeins samkvæmt alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og tekur þannig aðeins á úrlausnarefnum er varða fyrstu kynslóðar mannréttindi. Með fullgildingu valfrjálsrar bókunarinnar yrði komið á fót sambærilegri kærunefnd fyrir brot gegn þeim samningi og myndu efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi þannig hljóta aukna vernd sambærilega þeirri sem gilt hefur um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi síðan 1979.

Á árunum 2016–2017 fór fram allsherjarúttekt mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttindamála á Íslandi. Í skýrslunni var farið yfir það hvernig íslensk stjórnvöld hafa fylgt eftir tilmælum fyrri úttektar Sameinuðu þjóðanna og greint frá því til hvaða aðgerða hefur verið gripið til að bæta stöðu mannréttindamála á Íslandi. Í úttektinni var bent á að Ísland hefur fullgilt allar valfrjálsar bókanir við þá mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem það er aðili að, nema bókun við alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, samning gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og þriðju bókun við barnasáttmálann.

Í allsherjarúttektinni voru íslensk stjórnvöld hvött til að fullgilda valfrjálsa bókun við samninginn sem hér um ræðir en ekki var tekin nein sérstök afstaða til þess í skýrslu stjórnvalda um allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda sem gefin var út 2016 hvort stjórnvöld stefndu að undirritun og fullgildingu bókunarinnar.

Ljóst er að á undanförnum árum og áratugum hefur vægi efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda aukist mjög mikið. Með undirritun og fullgildingu valfrjálsu bókunarinnar við samninginn mætti stuðla að aukinni vernd þessara réttinda og komið yrði á sambærilegri kæruleið fyrir þau réttindi sem varin eru í alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi.

Það er orðið mjög langt síðan Ísland varð aðili að þessum samningi og staðfesti mikilvægi réttindanna sem hann verndar, bæði með breytingum á lögum og stjórnarskrá, en einnig fyrir dómstólum. Ef við undirritum og fullgildum valfrjálsu bókunina við samning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi verður kærunefndinni, sem starfar samkvæmt samningnum, kleift að taka við erindum frá einstaklingum á Íslandi. Þá stigjum við skref til að auka vernd þessara mikilvægu réttinda sem eru efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Forseti. Mig langar til þess að ljúka erindi mínu hér með því að lesa úr umsögn sem Landssamtökin Þroskahjálp sendu inn við málið fyrir þremur þingum síðan. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stundum er talað um borgaraleg og stjórnmálaleg mannréttindi og efnahagsleg og félagsleg mannréttindi. Öll þessi mannréttindi, stjórnmálaleg, borgaraleg, efnahagsleg og félagsleg, eru þó samtengd og hvert öðru háð. Ef lágmarksþörfum einstaklings til framfærslu er til að mynda ekki fullnægt er augljóst að tækifæri hans til að nýta tjáningar- og félagafrelsi sitt eru mjög mikið skertir og ef einstaklingur fær ekki tækifæri til að eignast heimili er augljóst að möguleikar hans til einkalífs eru afar takmarkaðir og svona mætti lengi telja. Efnahagsleg og félagsleg mannréttindi og borgaraleg og stjórnmálaleg mannréttindi eru því ein órjúfanleg heild.“

Það er alveg orðið tímabært að við gefum þessum mikilvægu réttindum, sem eru efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sama vægi og öðrum réttindum. Því vona ég að við náum á þeim stutta tíma sem eftir er af þessu þingi að klára þetta mál sem er búið að fá mjög góða gesti og góða umfjöllun í nefnd. Það er engin ástæða til þess að klára það ekki núna, loksins. Eins og ég segi er þetta í fimmta skiptið sem þetta mál er lagt fram og það hlýtur að vera að galdratala.