151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

brottfall laga um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis.

558. mál
[18:18]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (P):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um bann við olíuleit, eins og það myndi heita á skýrri íslensku en heitir langlokunafni, þökk sé því hvað lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolefnis heita. Ég varð dálítið hugsi þegar ég horfði á fréttir í gær, en þá var þess minnst að í gær voru 35 ár frá óhappinu í Chernobyl, stærsta kjarnorkuslysi sögunnar sem markaði þáttaskil í afstöðu almennings og stjórnvalda um allan heim til kjarnorkunnar. Ég varð hugsi vegna þess að viku áður voru ellefu ár frá óhappinu á Deepwater Horizon-borpalli olíufélagsins BP á Mexíkóflóa, sem er stærsta olíuslys sem orðið hefur á hafi í mannkynssögunni. Deepwater Horizon-borpallurinn sökk til botns og í fjóra mánuði og fjóra daga flæddi hráolía óhindrað úr borholu um 1.500 metra undir yfirborði sjávar út í Mexíkóflóa og olli þar gríðarlegri eyðileggingu á lífríki og náttúru. Það sem er svo sláandi við þennan samanburð er að almenningur og stjórnvöld hafa ekki snúið baki við hugmyndinni um olíuleit jafn rækilega og gerðist varðandi kjarnorku árið 1986 í kjölfar óhappsins í Chernobyl, heldur þvert á móti stendur nú til á þessu ári að BP taki í notkun nýjan olíuborpall á Mexíkóflóa. Og það eru fleiri í pípunum. Þetta olíufélag ætlar að stórauka framleiðslu á svæðinu. Það er nú kannski kaldhæðni örlaganna að fyrsti nýi olíuborpallur þeirra á svæðinu mun tappa olíu af lind sem ber nafnið Mad Dog, eða, með leyfi, óður hundur. Það er kannski við hæfi því að það er óðs manns æði að leggja í framkvæmdir af þessu tagi árið 2021 eftir allt sem við vitum varðandi áhrif jarðefnaeldsneytis á loftslagið og eftir það sem Deepwater Horizon sýndi okkur að gæti gerst ef illa færi við olíuvinnslu á hafi úti.

Það er einnig kaldhæðni örlaganna að rétt mánuði áður en Deepwater Horizon-óhappið varð samþykkti ríkisstjórn Íslands að setja í gang útboð á olíuleitarleyfum úti fyrir Íslandsströndum á Drekasvæðinu svokallaða, ekki þó í neinu tómarúmi því að ári áður sagði þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Kolbrún Halldórsdóttir, að þetta væri hreint afleit hugmynd. Fólki var auðvitað ljóst árið 2009 að það að fara að reka olíubor ofan í hafsbotninn 1.500 metra undir yfirborði sjávar, mörg hundruð kílómetra frá landi, væri slæm hugmynd. Þegar ofan á bætist það að við stöndum á krítískum tímapunkti í baráttunni gegn loftslagshamförum er ekki verjandi að fara í slíkar framkvæmdir.

Þetta frumvarp hefur tekið nokkrum breytingum frá því að það var fyrst lagt fram á 149. löggjafarþingi. Þá var lagt til að frysta lög um olíuleit þannig að ekki mætti taka til afgreiðslu umsóknir um vinnslu eða leit að jarðefnaeldsneyti meðan styrkur koltvísýrings í andrúmslofti væri yfir 350 ppm. Það er sú tala sem loftslagsvísindamaðurinn. James Hansen viðraði á svipuðum tíma og Chernobyl-slysið átti sér stað sem ákveðinn jafnvægispunkt í efnafræði lofthjúpsins, sem mörkin sem mannkynið þarf að ná styrk koltvísýrings undir til að við getum talist eiga nokkuð örugga framtíð. Styrkurinn sem James Hansen segir að þurfi að fara undir 350 ppm fór í fyrsta sinn í sögu mannkyns yfir 420 ppm í byrjun þessa mánaðar. Eftir því sem þessi styrkur verður meiri þeim mun erfiðara verður að ná tökum á loftslagsvandanum til frambúðar. James Hansen sagði fyrir nokkrum árum að ef ekkert yrði að gert fyrir árið 2021, árið í ár sem sé, gæti tekið kannski 200 ár að ná styrknum aftur undir 350 ppm.

Í ljósi þess að fyrra frumvarp lagði í raun til algjört stopp við olíuleit við Ísland er það nú lagt fram í breyttri mynd sem gengur einfaldlega út á það að lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis falli úr gildi með ákvæði til bráðabirgða um að ráðherra geri tillögur um breytingar á öðrum lögum sem nauðsynlegar eru í framhaldi af lögfestingu á banni við leit og vinnslu jarðefnaeldsneytis.

Virðulegur forseti. Þó að öll lönd heims hafi komið saman ítrekað og samþykkt að aðgerða sé þörf til að taka á loftslagsvandanum þá er dálítið langt að bíða þeirra aðgerða og sjá eitthvað gerast í raun og veru. Þannig er t.d. umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna búin að taka saman hvaða plön stærstu olíuframleiðsluríkin eru með og nýjar hugmyndir um olíuvinnslu. Ef þær hugmyndir sem þegar eru á teikniborðinu eru teknar saman og verða að veruleika mun olíuframleiðsla aukast um 2% á ári. Það sem þarf hins vegar að gerast til sú sviðsmynd haldist sem gengið er út frá í Parísarsamkomulaginu er að olíuframleiðslan dragist saman um 4% á ári. Þessi lönd eru öll aðilar að Parísarsamkomulaginu, en framleiðsluaukning þeirra verður til þess að þau munu framleiða 120% umfram það sem þarf til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um 1,5°C hlýnun. Hvað skýrir þetta annað en von um skammtímagróða og algjör blinda á þá heildarhagsmuni sem eru undir í loftslagsmálum?

En þó eru breytingar í vændum. Alþjóðabankinn t.d. og ýmsar alþjóðlegar fjármálastofnanir eru farin að ráða frá fjárfestingum í vinnslu jarðefnaeldsneytis. Það stafar ekki endilega af siðferðilegum ástæðum heldur einfaldlega köldu raunveruleika- og hagsmunamati vegna þess að innviðir í olíuiðnaði standa lengi. Olíuborpallarnir sem BP ætlar að taka í notkun á Mexíkóflóa á næstu árum munu hver um sig verða starfræktir í 20–30 ár hið minnsta. Framleiðslan mun halda áfram og þessi framleiðsla mun leita að eftirspurn til að svala. Annars standa fjármagnseigendurnir sem eru á bak við þessa innviði frammi fyrir því að tapa fé. Þetta er það sem er kallað „carbon lock-in“ í alþjóðlega umhverfinu, ég kann ekki almennilega íslenska hugtakið yfir það, virðulegur forseti, ég biðst forláts. Þrátt fyrir að alþjóðastofnanir mæli gegn því að fjárfestingum sé beint í átt að olíuiðnaði þá skortir olíubransann svo sem ekkert pening sem sést t.d. á því að BP er á að fullu við að auka við olíuframleiðslugetu sína á sama tíma reyndar og BP, eins og önnur olíufyrirtæki, er á fullu að grænþvo sig. Það er kannski hættulegasta staðan sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Svo að ég vísi í aðra alþjóðlega skýrslu, herra forseti, þá kom nýlega út stutt skýrsla sem heitir Banking on Climate Chaos. Þar eru teknir saman stærstu bankar og fjármálastofnanir sem fjármagna uppbyggingu í olíuiðnaði og hafa gert síðustu árin. Þar er um að ræða fjárfestingar frá 60 bönkum upp á um 3.800 milljarða frá því að Parísarsamkomulagið var gert. En þessir milljarðar eru ekki veittir bara hvert sem er. Það kemur fram í skýrslunni að meira en helmingur af þessum 60 bönkum setur t.d. mörk við það hvort þeir fjármagni olíu- og gasleit á norðurslóðum. Þetta er mikilvægt fyrsta skref í átt að því að hætta þessari framleiðslu. Norðurslóðir eru viðkvæmari en önnur svæði heimsins fyrir bæði loftslagsbreytingum og þeim umhverfisáhrifum sem verða beint af olíuframleiðslunni þannig að hér er fyrsta skrefið tekið af hálfu fjármálastofnananna.

En stjórnvöld á norðurslóðum eru á allt öðrum stað. Tökum t.d. Noreg, eitt stærsta olíuframleiðsluríki heims og ríki sem er með mikil áform um frekari uppbyggingu olíuframleiðslu á næstu árum og áratugum. Síðastliðið haust var t.d. opnað fyrir útboð í svæði á Barentshafi, einu nyrsta hafsvæði Noregs, svæði sem ætti að vera lokað fyrir frekari leit ef Norðmönnum væri alvara með því að segjast ætla að sýna metnað í loftslagsmálum. En þá sagði olíu- og orkumálaráðherrann Tina Bru að samfélagið þyrfti þetta til að viðhalda atvinnustigi og verðmætasköpun fram á við. Þetta stóð í fréttatilkynningu norska stjórnarráðsins með útboðinu. Aftur, herra forseti, er það skammsýnin, skammtímagróðinn sem kitlar. Tina Bru sagði þetta á svipuðum tíma og hæstiréttur Noregs hafnaði kröfu umhverfisverndarsinna um að áframhaldandi olíuleit stangaðist á við stjórnarskrárvarinn rétt fólks til heilnæms umhverfis. Þessi staða öll, þessi dómur og þessi áform varpa svo vandræðalega skýru ljósi á þá stöðu sem Noregur er í, að segjast vera leiðandi í loftslagsmálum en halda á sama tíma ótrauður áfram að leita að meiri olíu. Svo tók orkustofnun Noregs sig til núna um áramótin og úthlutaði 61 leyfi til olíu- og gasleitar, 34 í Norðursjó, þremur í Barentshafi og víðar. Equinor-olíufélagið, sem einu sinni hét Statoil, segist vera á grænni vegferð, alveg eins og BP segist vera. Equinor er t.d. með sjálfbærnistefnu sem gengur út á að tífalda hlut endurnýjanlegrar orku fyrir árið 2026. En það er greinilega tíföldun upp úr mjög lágri tölu vegna þess að endurnýjanleg orka verður ekki nema 4% af framleiðslu Equinor á þeim tímapunkti. Í viðleitni sinni til að verða grænasta olíufélagið þá ætlar Equinor líka að draga úr losun koltvísýrings við framleiðsluna sjálfa, um helming fyrir hvert fat af olíu. En hins vegar ætlar fyrirtækið að auka olíuframleiðslu um 300% til ársins 2030. Losun koltvísýrings við framleiðslu olíu er bara brot af þeirri losun sem verður síðan af bruna olíunnar sjálfrar.

Equinor opnaði með pompi og prakt í október 2019 nýjan olíuborpall sem er með einna lægsta kolefnisfótspor framleiðslu sem um getur vegna þess að borpallurinn er tengdur með sæstreng til lands og fær þannig rafmagn frá vatnsaflsvirkjunum. En þegar þessi borpallur, Johan Sverdrup, kemst í fullan rekstur mun hann auka framleiðslu Noregs um þriðjung. Hann var ræstur í október 2019. Johan Sverdrup framleiðir um 500.000 tunnur af olíu á dag og þegar sú olía brennur losar hún um 215.000 tonn af koltvísýringi — ég lék mér að því að reikna þetta aðeins. Losun Íslands allt árið 2019 jafngilti 22 daga framleiðslu Johans Sverdrups, en losunin bókfærist ekki hjá Noregi vegna þess að olían er flutt úr landi og brennd í öðrum löndum. Noregur ber þó siðferðilegu ábyrgðina á því að setja þessa mengandi vöru á markað, búa til framboðið sem kallar á eftirspurn.

Herra forseti. Það er kannski freistandi að spyrja, fyrst olíuútboð Íslands eru um garð gengin og það er enginn að leita að olíu á Drekasvæðinu lengur, hvort það sé ekki óþarfi að vera eitthvað að pota í þennan bókstaf í lagasafninu sem segja má að sé dauður. En þegar mælt var fyrir þessu máli síðast og það var sent út til umsagnar barst umsögn frá Orkustofnun Íslands sem vakti mér nokkurn ugg. Þar á bæ virðist fólk bara vel til í að skoða þann möguleika að leita að olíu á Drekasvæðinu, eða var það alla vega árið 2019. Þar var talað um að hætt væri við að aðrar þjóðir myndu líta á ákvörðun um að hætta við olíuleit sem sýndarmennsku af Íslands hálfu og að það væri pólitísk áhætta að eftirláta markaðinn löndum þar sem lýðræði og mannréttindi eru langt frá okkar viðmiðum um hvað er ásættanlegt. Þannig að vegna þess að Sádi-Arabía er lýðræðislega illa statt sé betra að Ísland og Noregur takmarki ekki vinnslu á olíu og gasi. Ég vona að þetta viðhorf Orkustofnunar muni breytast með nýjum orkumálastjóra sem tekur við núna á vordögum, vitandi að Halla Hrund Logadóttir sem mun taka við embætti er með sterkan bakgrunn í sjálfbærnifræðum og málefnum norðurslóða. En til að tryggja það og geirnegla að ekki verði farið í einhverjar æfingar á Drekasvæðinu í framtíðinni er hreinlegast að samþykkja þetta frumvarp og nema lög um olíuleit einfaldlega úr gildi.

Í rauninni finnst mér skrýtnast við þetta mál að ég þurfi að leggja það fram, ásamt öðrum reyndar. Svo ég telji það saman þá erum við sex þingmenn Pírata og þrír þingmenn Samfylkingar saman á málinu. En þetta er svo borðleggjandi mál að ég skil ekki að ríkisstjórnin sé ekki löngu búin að fella þessi lög úr gildi á þeim langa tíma sem hún hefur haft til þess á kjörtímabilinu. Bann við olíuleit er t.d. ein af einföldustu og skýrustu kröfum föstudagsverkfallanna sem átt hafa sér stað hér í tvö ár þar sem ungt fólk hefur kallað eftir aðgerðum strax, en þau hafa þurft að bíða ansi lengi eftir aðgerðum. Sá hópur átti fund með ríkisstjórninni fyrir einu og hálfu ári og lagði fram lista af aðgerðum sem grípa mætti til, eins og að lýsa yfir neyðarástandi, banna olíuleit og ýmislegt annað. Ekkert af því hefur náð fram að ganga.

Þegar ríkisstjórnin talar fyrir metnaðarfullri stefnu í loftslagsmálum þarf hún líka að sýna hana. Og ein af þeim leiðum sem eru til staðar til að sýna metnaðinn er að breyta lögum. Þá er hægt að nefna að formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins voru ansi hreykin þegar þau sögðu í blaðagrein um daginn að í nýrri orkustefnu settum við Íslendingar okkur það markmið að verða óháð jarðefnaeldsneyti ekki síðar en 2050. Í því samhengi er auðvitað út úr öllu korti að ætla að framleiða jarðefnaeldsneyti á sama tíma og við erum að reyna að gera okkur óháð því.

En það sem þetta mál snýst líka um, herra forseti, er að Ísland standi undir nafni sem framsækið ríki í loftslagsmálum. Það myndi líka gefa okkur sterkari stöðu þegar við tölum við vini okkar, olíufíklana, sem enn halda að það sé í boði að tappa af nýjum og nýjum olíulindum á sama tíma og þeir tala fyrir aðgerðum í loftslagsmálum. Varðandi aukna olíuframleiðslu í heiminum á Ísland að tala skýrt á alþjóðavísu, segja stopp, segja stopp strax.