151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

breyting á embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins.

591. mál
[19:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er orðinn meiri sameiningarsinni en Samfylkingarþingmenn. Ég trúi því að við getum styrkt þetta eftirlit á fleiri stöðum, af því að Neytendastofa var nefnd, þetta eftirlit stjórnvalda sem ég geri ekki lítið úr. Það er alltaf verið að reyna að halda því fram að Sjálfstæðismenn vilji bara losna við eitthvert eftirlit. Við viljum styrkja það og við viljum geta nýtt mannskapinn. Við erum ekki mikið fyrir örstofnanir því að ég held að þær séu alla jafna veikburða. En varðandi Samkeppniseftirlitið og það sem þarna kom fram þá megum við ekki gleyma tilganginum með eftirlitinu. Það snýst ekki bara um að ná einhverjum eða refsa einhverjum, það snýst um að leiðbeina, halda utan um hlutina til að styrkja kerfið, styrkja viðskiptalífið, styrkja fjármálakerfið o.s.frv. Spurningin snýst í mínum huga miklu meira um þetta: Hvernig gerum við það? Gerum við það með því að nýta mannaflann í stærri einingum? Ég tel svo vera. Mér finnst það ekki gáfulegt eða viturlegt að hafa einhvern einangraðan skattrannsóknarstjóra í sérstofnun einhvers staðar úti í bæ, hann verður meira veikburða en að vera inni í Skattinum sem er stór og öflug eining. Því að tilgangurinn er alltaf sá sami í þessu, eins og í samkeppnismálum, að tryggja að álagning sé rétt og að farið sé eftir reglum.