151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

viðurkenning á Anfal-herferðinni sem þjóðarmorði á Kúrdum.

592. mál
[19:09]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar á um að viðurkenna Anfal-herferðina sem þjóðarmorð á Kúrdum. Efni tillögunnar er, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að viðurkenna Anfal-herferðina (1986–1989) sem þjóðarmorð á Kúrdum og glæp gegn mannkyni.“

Sameinuðu þjóðirnar samþykktu árið 1948 að fordæma skyldi þjóðarmorð og refsa þeim sem þau fremja. Þjóðarmorð eru glæpur samkvæmt þjóðarétti og fela í sér kerfisbundna útrýmingu þjóðar eða þjóðarbrots. Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir þjóðarmorð eru þau skilgreind sem refsiverður verknaður, framinn í þeim tilgangi að útrýma með öllu eða að hluta þjóð, þjóðernishópi, kynstofni eða trúarflokki, með því að drepa einstaklinga úr viðkomandi hópi, skaða þá líkamlega eða andlega, þröngva viðkomandi hópi af ásetningi til þess að búa við lífsskilyrði sem miða að eyðingu hópsins eða hluta hans, beita þvingunaraðgerðum sem miða að því að koma í veg fyrir barnsfæðingar í hópnum eða flytja börn með valdi úr hópnum.

Á árunum 1986–1989 voru á bilinu 100.000–180.000 Kúrdar teknir af lífi í Anfal-herferðinni sem var framkvæmd af Ba'ath flokknum í Írak undir stjórn Saddams Husseins. Anfal-herferðin var framkvæmd í átta stigum, þar sem m.a. var ráðist inn á heimili Kúrda að nóttu til, heimilisfólkið dregið út og það sent í útrýmingarbúðir.

Við tók ferli sem miðaði að því að skipta út þjóðflokki Kúrda alfarið fyrir fólk af arabískum uppruna í Suður-Kúrdistan. Samkvæmt Mannréttindavaktinni, sem heitir á ensku Human Rights Watch, dóu á bilinu 50.000–100.000 Kúrdar á árunum 1986–1988, en kúrdískir embættismenn telja að hátt í 182.000 manns hafi týnt lífi sínu. Hver sem endanleg tala er þá er enn verið að finna og grafa upp fjöldagrafir á víð og dreif um Suður-Kúrdistan.

Saddam Hussein réttlætti Anfal-herferðina á grundvelli túlkunar á 8. súru Kóransins um að Kúrdar væru í raun ekki alvörumúslimar heldur syndarar. Að taka nautgripi, peninga, kindur og kúrdískar konur frá heimilum var gert löglegt og réttlætt með vísan í 8. súru Kóransins.

Anfal-herferðin hefur enn mikil áhrif á stöðu Kúrda. Þúsundir Kúrda eru án heimilis og á flótta, fjölmörg börn ólust upp án foreldra og á munaðarleysingjahælum, þorp og landsvæði voru þurrkuð út og enn er verið að vinna að því byggja þau aftur upp, samtímis því sem líkamsleifar fleiri fórnarlamba finnast.

Hvað réttarhöld yfir gerendum varðar var Saddam Hussein dæmdur til dauða, en ekki fyrir þátt sinn í Anfal-herferðinni. Margir Kúrdar gera enn kröfu um að réttlætinu verði fullnægt í ljósi þess að Hussein hlaut ekki dóm fyrir þátt sinn í Anfal-herferðinni.

Ba'ath flokkurinn var lagður niður og kúrdísk uppreisn gegn honum árið 1991 leiddi af sér kúrdíska ríkisstjórn í Suður-Kúrdistan árið 1992. Meðlimir Ba'ath flokksins voru útskúfaðir úr kúrdískum bæjum og þorpum til ársins 1996. Eftirlifendum Anfal-herferðarinnar og þeim sem náðu að flýja útrýmingarbúðir hefur verið boðið aftur til Kúrdistan til að bera vitni gegn sakborningum í réttarhöldum.

Bretland, Svíþjóð, Noregur og Suður-Kórea hafa þegar viðurkennt Anfal-herferðina sem þjóðarmorð. Áframhaldandi viðurkenning og fordæming á verknaðinum er mikilvægt skref í skilningi alþjóðalaga til að tryggja þeim sem lifðu hörmungarnar af aðgang að ferlum sem miða að uppgjöri og réttlæti, en dæmi frá Bosníu og Hersegóvínu, Rúanda og víðar hafa sýnt að alþjóðleg viðurkenning á þjóðarmorðum getur verið lykillinn að því að réttlætisferli, sem heitir á ensku, með leyfi forseta, „transitional justice“ hefjist. Þótt atburðirnir séu nær okkur í tíma en til að mynda helförin eða þjóðarmorð Tyrkja á Armenum, þá er mikilvægi viðurkenningar nú enn meira í ljósi viðvarandi skerðingar á mannréttindum Kúrda í Tyrklandi, Írak, Sýrlandi og víðar, áframhaldandi flóttamannastöðu tugþúsunda Kúrda, þáttar Kúrda í falli Daesh-samtakanna, sem margir þekkja sem ISIS, og ekki hvað síst viðleitni Kúrda til þess að fá Kúrdistan viðurkennt sem sjálfstætt ríki þeirra.

Herra forseti. Þetta mál er þesslegt að það er auðvelt og kannski of auðvelt fyrir mannkynið að horfa fram hjá því eins og því miður allt of mörgum málum af svipuðum toga. En eins og ég nefndi og kemur fram í greinargerðinni er ljóst að sannleiks-, uppgjörs- og réttlætisferli hafa skipt sköpum í meðferð svona mála til að reyna að búa til einhvers konar eðlilegt ástand fyrir eftirlifendur. Það að Alþingi taki þetta mál upp núna er í rauninni rosalega auðvelt fyrir okkur, það er ekki mikið um deilur um það hvort þetta hafi átt sér stað. Flestar staðreyndirnar eru vel þekktar. Það eru til fjölmargar bækur þar sem farið er mjög vel yfir öll málsatriði og það eru til margar frásagnir frá eftirlifendum sem geta vottað um atburðina. Engu að síður, þrátt fyrir alla þessa skjalfestingu, vantar enn þá að þetta ferli fari í rauninni af stað og fái að ganga sinn gang þannig að ég vona að þetta verði tekið fyrir af mikilli alvöru í utanríkismálanefnd, en ég geri ráð fyrir því að það gangi þangað, og að málið verði afgreitt fljótt þaðan út og verði svo samþykkt.