151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

viðurkenning á Anfal-herferðinni sem þjóðarmorði á Kúrdum.

592. mál
[19:24]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir góða ræðu, margt rétt sem kom fram þar. Ég hef verið svolítið hugsi bæði varðandi þetta mál og mál af þessu tagi, hvort ekki væri til einhvers konar farvegur eða leið til að bæta umgjörðina utan um svona mál. Þó að það sé vissulega alveg gott og gilt að Alþingi fordæmi svona verknað og álíka verknað og að hvert land geri það fyrir sig þá finnst mér stundum eins og það vanti betri alþjóðlega stofnanaleið til þess að tryggja að þetta verði gert bæði vel og hratt þegar það á við.

Mig langar til þess að forvitnast um það hjá hv. þingmanni, vegna þess að nú þekki ég að hann hefur starfað í Palestínu og hefur sýnt málum af svipuðum toga mikinn áhuga, hvort hann hafi einhverjar hugmyndir um hvernig við gætum reynt að straumlínulaga meðferð svona mála. Það eru svo mörg alvarleg mannréttindabrot, þjóðarmorð, glæpir gegn mannkyni og fleira sem þyrfti að taka fyrir hér á Alþingi, þyrfti að taka fyrir í þingum úti um allan heim. En einhverra hluta vegna þá gengur það mjög erfiðlega fyrir sig og í rauninni er það bara eitt og eitt mál sem kemst inn á borð. Þannig að ég óska eftir því að hv. þingmaður fari í svona smáhugsanaleik með mér um hvernig við gætum reynt að gera þetta betra.