151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

viðurkenning á Anfal-herferðinni sem þjóðarmorði á Kúrdum.

592. mál
[19:28]
Horfa

Flm. (Smári McCarthy) (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þetta svar. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að flækjan í þessu er auðvitað pólitísk og fyrst og fremst þjóðernispólitísk. Það eru einhverjir þjóðernispólitískir hagsmunir sem valda því að lönd eru oft kannski ekki nógu hugrökk til að fordæma hluti sem ætti að vera auðvelt að fordæma og nýleg fordæming Bandaríkjanna á þjóðarmorðinu á Armenum var í rauninni bara sjaldgæf, því miður, en gott dæmi. Ég þekki marga Armena sem fögnuðu mjög. Hv. þingmaður talar um Sameinuðu þjóðirnar í þessu samhengi og þá fer maður að hugsa um einhverja leið, það er til mannréttindaráð eða mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna og Ísland átti nýlega sæti þar, hvort Ísland ætti kannski með einhverjum hætti að formgera það að byrja að miðla tilmælum til þeirrar nefndar sem allra oftast. En eins og kom fram í ræðu hv. þingmanns ætti það kannski fyrst og fremst að vera ríkisstjórnin á hverjum tíma sem kemur fram með svona mál til Alþingis frekar en einstaka þingmenn. Væri einhver vettvangur fyrir það að íslenskar ríkisstjórnir miðli svona málum og ætti Ísland ekki að vera duglegra að beita sinni smáþjóðapólitík einmitt í þágu þessara mannréttinda?