151. löggjafarþing — 87. fundur,  27. apr. 2021.

viðurkenning á Anfal-herferðinni sem þjóðarmorði á Kúrdum.

592. mál
[19:30]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir það með hv. þingmanni að Ísland á að sjálfsögðu að nota tækifærið og koma þessu á framfæri. Við sátum í mannréttindaráðinu í fyrsta sinn á síðasta ári og það var ákveðin prófraun á getu okkar innan þess ráðs. Ég held að í flestum tilfellum hafi tekist vel til þar. Ég fagna t.d. sérstaklega því hvernig Ísland hafði frumkvæði að því að benda á það sem betur mætti fara í Sádi-Arabíu, sérstaklega gagnvart konum þar. Það sýnir að við erum alveg megnug í þessum efnum og við þurfum ekkert að óttast. Við eigum að nota tækifærið til að koma svona málefnum á framfæri á alþjóðavettvangi og ræða þessi mál meira, t.d. hér í þingsal, hvernig við gætum staðið að því að styðja við bakið á þjóðum, t.d. þar sem átök hafa lengi geisað og margir eiga um sárt að binda, með öflugum málflutningi á alþjóðavettvangi því það skiptir verulegu máli fyrir litlar þjóðir að á þær sé hlustað. Við höfum fengið, eins og ég nefndi áðan, góð viðbrögð við málflutningi okkar erlendis þegar við höfum komið inn á málefni af þessum toga. Við njótum trausts eins og ég nefndi í ræðu minni. Þetta skiptir allt verulega miklu máli og þarna eru vannýtt tækifæri af hálfu okkar. Það eru fleiri smáríki og innan Sameinuðu þjóðanna eru þjóðríki sem mynda með sér hóp smáríkja, (Forseti hringir.) þar væri hægt að koma þessu á framfæri og nota þann vettvang einnig. Tækifærin eru mörg og við eigum svo sannarlega að nýta okkur þau.