151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

málefni eldri borgara og öryrkja.

[14:11]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Nú er hópur öryrkja fá 275.000 kr. á mánuði eða 239.000 kr. eftir skatt. Þá fær hópur ellilífeyrisþega bara 266.000 kr. á mánuði og 233.000 kr. eftir skatt. Atvinnuleysisbætur eru nú 307.430 kr. á mánuði og lágmarkslaun eru 351.000 kr. á mánuði fyrir skatt. Nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar er svo 472.000 kr. á mánuði plús 11% lífeyrissjóð fyrir útvalinn hóp atvinnulausra og félagsbótaþega, sem er flott mál. Því spyr ég hæstv. félags- og barnamálaráðherra: Hvernig er þessi mismununur á greiðslu fundinn út og hvers vegna? Þarna er verið að greiða um 200.000 kr. meira á mánuði, sem er frábært. En hvers vegna er þetta ekki í boði fyrir alla hina sem þurfa að reyna að tóra á 230.000 kr. á mánuði eftir skatt?

Þá ætlar hæstv. ráðherra og ríkisstjórn enn og aftur að mismuna þeim sem verst hafa það og borga atvinnulausum 100.000 kr. í eingreiðslu, sem er gott mál, en skilja öryrkja og eldri borgara eftir. Hvers vegna? Það er nefnilega komið í ljós að hæstv. ráðherra og ríkisstjórnin hefur skilið einn hóp algjörlega eftir í Covid-19 faraldrinum og það er verst setti hópur eldri borgara, hópur sem í eru aðallega konur sem voru ekki á vinnumarkaði og eiga því ekki lífeyrisréttindi. Konur sem stóðu fyrir framan eldavélina, hugsuðu um börnin og heimilið og reyna að lifa á 233.000 kr. útborguðum á mánuði, eftir skatt.

Ég spyr því: Hvernig fáið þið þetta út og hvers vegna í ósköpunum eruð þið að mismuna fólki svona gróflega með alls konar tölum? Og til hvers? Er einhver könnun í gangi á því hver getur tórað lengst á minnstu?