Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

fsp. 2.

[14:13]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn sem reyndar var nokkrar spurningar og vangaveltur hv. þingmanns sem ég ætla að leitast við að svara. Í fyrsta lagi er það auðvitað svo að við vorum að leggja til og samþykkja eingreiðslur til langtímaatvinnulausra sem eru einstaklingar sem hafa verið mjög lengi atvinnulausir, í 14 mánuði eða lengur, og voru orðnir atvinnulausir fyrir Covid-19. Sú tillaga er lögð fram til að koma til móts við þá aðila og ekki sú hugsun á bak við að mismuna eldri borgurum og öðrum þeim sem eru atvinnulausir.

Síðan vil ég segja varðandi aðra hópa að við höfum í aðgerðapökkum okkar komið með fjármagn í eingreiðsluformi, bæði til örorkulífeyrisþega og til annarra hópa. Það er einfaldlega ekki rétt að við höfum ekki gert neitt þegar kemur að verst setta hópnum í hópi aldraðra vegna þess að við samþykktum hér sérstök lög fyrir ekki svo löngu sem eru einmitt að byrja að hafa jákvæð áhrif og varða sérstakan bótaflokk eldri borgara sem búa við bágust kjörin. Við erum byrjuð að sjá hvernig ákveðnir hópar eru gripnir. Einnig miða allar þær aðgerðir sem við höfum ráðist í, þegar kemur að breytingum á skattkerfi og öðru, sérstaklega að tekjulægri hópum og það teygir sig auðvitað inn í alla hópa samfélagsins. Ríkisstjórnin hefur líka verið með í gangi vinnu við að kortleggja frekari aðgerðir fyrir hóp aldraðra og ekki er loku fyrir það skotið að mögulegt verði að klára eitthvað af því (Forseti hringir.) fyrir lok þessa kjörtímabils, enda höfum við unnið það í þéttu samstarfi nokkurra ráðuneyta við Landssamband eldri borgara og fleiri aðila.