151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

málefni eldri borgara og öryrkja.

[14:17]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þingmaður er að tala um átakið Hefjum störf og þá einstaklinga sem geta fengið vinnu í gegnum það róttæka úrræði og talar um að ríkisstjórnin sé búin að þrengja kassann gagnvart þessum hópum, þá er það auðvitað svo að ríkisstjórnin tók sig einmitt til og víkkaði út mörkin sem lúta að þessu. Jú, það er þannig, hv. þingmaður. Vinna með stuðningi hefur ævinlega verið til staðar. Við erum að greiða meira til þess að skapa fleiri störf og hún hefur alltaf verið til staðar fyrir einstaklinga sem eru á atvinnuleysisskrá, en í fyrsta skipti erum við að láta það ná yfir einstaklinga sem hafa klárað bótaréttinn á síðustu sex mánuðum frá því átakið tók gildi og þeir eru þar af leiðandi komnir inn á fjárhagsaðstoð. Þannig að við höfum aldrei víkkað kassann, af því að hv. þingmaður notar það orðalag, eins mikið og við höfum gert í þessu starfaátaki vegna þess að aðstæður eru fordæmalausar. En það er auðvitað alltaf þannig að þegar við ákveðum að teygja okkur sex mánuði (Forseti hringir.) aftur í tímann þá er einhver sem er búinn að vera sex mánuði og einn dag, þannig virkar það. En að tala um að ríkisstjórnin hafi þrengt kassann, þegar hún er búin að víkka hann um sex mánuði, er einfaldlega ekki rétt.