151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

barnalög.

204. mál
[17:00]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni og framsögumanni þessa máls fyrir yfirferðina og útlistun á því sem í því felst og nefndarálitinu. Hún rifjaði upp að þetta mál tengist öðrum málum sem voru til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd fyrr í vetur. Þetta var fjórða og síðasta málið, það eina sem var útistandandi. Ég held að öllum sem hafa skoðað þetta mál sé ljóst að það felur í sér mikilvægar réttarbætur og er af hinu góða, en ég vildi rétt koma hér upp núna til að gera grein fyrir fyrirvara mínum við málið. Það er kannski rétt að nefna fyrst að ég skrifa undir nefndarálitið með meiri hlutanum, er hlynnt þessum breytingum, þessum réttarbótum, og styð málið. Ég tel að það sé jákvætt. Ég er meðvituð um það eins og held ég flestir, ef ekki allir, nefndarmenn allsherjar- og menntamálanefndar, eftir að hafa lesið umsagnir og hlýtt á gesti sem komu fyrir nefndina og reifuðu sín sjónarmið, að það er augljóst að undir eru miklar tilfinningar, þetta er mikið hjartans mál enda miklir hagsmunir fólks í húfi. Gagnrýnin laut auðvitað því, sem hefur verið rakið hér af hv. þingmanni, að ekki skyldi vera gengið lengra í að breyta barnalögum þannig að þau samrýmist betur veruleika allra foreldra og allra fjölskyldna. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir hefur nú þegar gert grein fyrir því í hverju þessi gagnrýni fólst og um leið reifað það að hvaða leyti stendur til að vinna í kjölfar samþykktar frumvarpsins með þessi sjónarmið að leiðarljósi. Minn fyrirvari við málið laut að þessu eina atriði.

Auðvitað er það þannig að með samþykkt þessa máls hefur fullu jafnræði allra fjölskyldna og allra foreldra ekki verið náð fram af hálfu löggjafans. En ég var mjög ánægð með það og fannst gott að meiri hlutinn, eins og ég skildi það, var einhuga um að vinnunni yrði fram haldið, eins og rakið er í nefndarálitinu, með því að í kjölfarið fari fram heildarendurskoðun á barnalögunum. Ég hef reyndar skilning á því að í þeirri vinnu sé eðlilegt, í stað þess að eiga við ákveðnar greinar, og það fari vel á því að nálgast það mál með heildstæðum hætti, þ.e. fara í gegnum löggjöfina alla, rýna hana út frá þessum breytta veruleika fólks í samfélaginu í dag. Við erum að horfa á margbreytileg fjölskylduform, við erum að horfa á framfarir í vísindum og við erum líka að horfa á önnur og jafnvel sterkari sjónarmið um rétt barna, t.d. til að þekkja foreldra sína, meira vægi barnasáttmálans o.s.frv. Ég bind miklar vonir við þá vinnu sem kemur í kjölfarið og að að henni lokinni séum við farin að horfa til þess að á Íslandi hafi náðst fram jafnrétti og jafnræði þar sem fjölskyldur og fjölskylduform njóta sömu réttinda. En þetta er auðvitað flókin vinna með tilliti til þess sem ég nefndi, að fjölskylduformin eru fleiri og fjölbreytilegri en þau voru og inn í þetta allt saman þarf um leið að flétta sjónarmið um rétt barnsins. En ég hafði þann fyrirvara að ég vildi að fram kæmi skýr afstaða mín til þessa og ég tel mikilvægt og raunar nauðsynlegt, með tilliti til jafnræðissjónarmiða, að halda vinnunni áfram og að markmiðið sé fullt jafnrétti.