151. löggjafarþing — 88. fundur,  3. maí 2021.

barnalög.

204. mál
[17:06]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Frú forseti. Ég er, eins og kom fram hér áðan, með á nefndarálitinu en skrifaði undir það með þeim fyrirvara að það tryggi ekki með fullnægjandi hætti rétt hinsegin foreldra og samræmist ekki veruleika hinsegin foreldra og fjölskyldna þeirra. Samþykki laga um kynrænt sjálfræði hefur einmitt gefið Alþingi tilefni til að fara í heildarendurskoðun á lögum er varða persónurétt, m.a. á hjúskaparlögum, erfðalögum og barnalögum. Þá verður að hafa í huga að ekki er nóg að orðalagið sé gert kynhlutlaust, heldur þarf að tryggja að réttindin haldist og að réttur verði ekki takmarkaður heldur frekar víkkaður út. Eflaust hefði ráðuneytið einmitt átt að byrja þar. Hér er komið fram frumvarp undir því yfirskini að verið sé að bregðast við nýlega samþykktum lögum um kynrænt sjálfræði án þess að reynt sé að fara alla leið. Ef við gerum þetta þá höldum við bara áfram að lenda í sömu klemmunni, að lögin ná ekki yfir öll kyn og taka ekki tillit til hinsegin veruleikans.

Mig langar að vitna í umsögn Trans Íslands þar sem kemur fram, með leyfi forseta:

„Samkvæmt núgildandi lögum þarf kona sem fæðir barn og á eiginmann sem er trans karl ekki að gera sérstaklega grein fyrir notkun sinni á gjafasæði, rétt eins og gildir ef eiginmaðurinn er karl sem ekki er trans. Með breytingunum sem frumvarpið felur í sér yrði þessum foreldrum skylt að gera grein fyrir notkun á gjafasæði eins og um tvær konur væri að ræða. Sætu því ekki allir feður við sama borð.

Hér er því verið að skipta út mismunun í garð tveggja kvenna (sem er til staðar í núgildandi lögum, burt séð frá upphaflegri kynskráningu) og innleiða í staðinn mismunun í garð tveggja einstaklinga sem upphaflega voru skráð konur (burt séð frá núverandi kynskráningu).“

Þó að þetta frumvarp sé mikilvægt skref þá sakna ég þess að þetta tækifæri hafi ekki verið notað til þess að ráðast í heildarendurskoðun á lögum er varða persónurétt.