151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

störf þingsins.

[13:02]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Tíu ára má barn fara eitt í sund. Tólf ára hefur það rétt til að segja skoðun sína, hvort það vill t.d. áfram vera í trúfélagi. Þrettán ára má barnið vinna létt störf. Fimmtán ára má barnið ráða sig til að gæta annarra barna. Fimmtán ára verður barn sakhæft. Fimmtán ára barn má stunda kynlíf. Fyrst sextán ára má barn ganga í stjórnmálaflokk. Sextán ára gilda almennar útivistarreglur ekki um barnið. Átján ára verður barnið lögráða og fjárráða einstaklingur. Átján ára fær einstaklingur kosningarrétt og má ganga í hjónaband og kaupa tóbak. Tuttugu ára má einstaklingur kaupa áfengi og eiga og nota skotvopn.

Við sem teljumst fullorðin reynum að hafa vit fyrir æsku samfélagsins hverju sinni. Veröldin breytist hratt í hraðadýrkandi neyslusamfélagi. Sjálf erum við fyrirmyndir. Við setjum æskunni, einstaklingum, engu að síður þessar skorður. En er kominn tími til að skilgreina í lögum hvenær barn má eignast snjallsíma? Í stjórnarskrá Íslands stendur að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Hvenær hefur einstaklingur þroska til að gera alls konar? Við setjum viðmið um orkudrykkjaneyslu barna og ungmenna vegna þess að við vitum að slík neysla hefur áhrif. En hvers vegna er það í lagi, hvers vegna samþykkjum við það, að 12 ára barn eignist síma með aðgangi að öllu því internethlaðborði sem samfélagsmiðlar hafa upp á að bjóða, hvað þá tíu ára barn eða níu ára? Við eigum fordæmi og höfum reglur. Samkvæmt lögum mega börn sem náð hafa fjórtán ára aldri sjá allar kvikmyndir í kvikmyndahúsum ef þau horfa á myndina í fylgd foreldris eða forsjáraðila. Ættum við hér á Alþingi kannski að setja lög um að einstaklingur megi eignast snjallsíma með interneti og samskiptaforritum fimmtán ára? Verndum börnin okkar og ungmennin og aðstoðum foreldra við að sinna því ábyrgðarmikla hlutverki að ala upp barn.