151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

störf þingsins.

[13:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir ræddi hér áðan um skipulagða glæpastarfsemi og er full ástæða til að taka undir almenn viðvörunarorð af hennar hálfu í þeim efnum. Það er rétt sem hefur komið fram hjá lögregluyfirvöldum í landinu að skipulögð glæpastarfsemi er vaxandi vandamál og ein af helstu ógnum sem við okkur blasir á þessum tímum. Hins vegar held ég að rétt sé að halda því til haga að ríkisstjórnin hefur ekki, eins og hv. þingmaður lét í veðri vaka, setið aðgerðalaus og látið þessa þróun eiga sér stað án þess að bregðast við með einhverjum hætti. Það er langt því frá.

Við höfum fjallað um þessi mál á vettvangi hv. allsherjar- og menntamálanefndar. Þar hefur m.a. komið fram að á undanförnum misserum hefur, einmitt vegna hættunnar af skipulagðri glæpastarfsemi, verið farið í sérstakt átak við að auka samvinnu lögregluembætta og annarra yfirvalda sem fást við rannsóknir á þessum málum og auknu fjármagni hefur verið varið í rannsóknir á þessu sviði, stórauknu fjármagni, með sérstökum fjárveitingum en eins með því að nýta fé sem hugsanlega hefur ekki nýst annars staðar í þessum tilgangi. Það hefur því verið verulega aukið í að þessu leyti. Í þriðja lagi hafa verið gerðar ýmsar breytingar á löggjöf, sérstaklega í því skyni að auðvelda lögregluyfirvöldum að sinna rannsóknum og eftirfylgni á þessu sviði. Hér hafa verið lagabreytingar sem hafa falið í sér breytingar sem varða peningaþvætti, vinnslu persónuupplýsinga í löggæsluskyni, framsal sakamanna. Við hér í þinginu erum með breytingu á lögreglulögum sem m.a. á að svara þörf að þessu leyti. Við erum að breyta Schengen-reglum (Forseti hringir.) til að auðvelda okkur að nýta upplýsingakerfi í þessu skyni og svo má lengi telja, herra forseti.