151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

störf þingsins.

[13:20]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Nú er baráttudagur verkafólks nýliðinn. Ég heyrði í forseta ASÍ í gær þar sem hún lagði upp með það að fyrir næstu kosningar myndi ASÍ og forysta launafólks beita sér fyrir því að eiga samtal við frambjóðendur og stjórnmálaflokka og kalla eftir því hvaða stefnu viðkomandi flokkar hefðu í málefnum launafólks. Það er vissulega víðtækt því að launafólk er auðvitað bara almenningur í landinu. Það skiptir máli fyrir almenning í landinu hvernig staðið er að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins, skattkerfisins, uppbyggingu húsnæðismála og atvinnu, svo eitthvað sé nefnt. Allt eru þetta málefni sem snerta líf hvers einasta launamanns í landinu og mér finnst mjög gott að vita til þess að fyrir næstu kosningar muni verða kallað eftir afgerandi svörum frá frambjóðendum, hvernig þeir hyggist, ef þeir komast til valda, haga sínum störfum og hvaða áherslumál þeir muni setja á oddinn. Við vitum að flokkar eru mismunandi og það er mismunandi forgangsröð hjá þeim. Ég tel að við Vinstri græn höfum við þessar aðstæður, sem hafa verið gífurlega erfiðar út af Covid, ekki síst efnahagslega, fyrir okkur sem þjóð, sýnt fram á að við höfum sett hag þeirra sem minnst mega sín og launafólks í landinu á oddinn við þær aðstæður. Þess vegna skiptir máli hverjir koma að stjórnarborðinu eftir næstu kosningar. Við vitum aldrei hvenær erfiðleikar verða í þjóðarbúinu og þá skiptir máli hvernig forgangsraðað er í þágu launafólks og þeirra sem minna mega sín. Ég tel að Vinstri græn geti gengið stolt frá þessari ríkisstjórn sem setið hefur síðustu fjögur ár, eða næstum því, og geti sýnt fram á að við munum beita okkur fyrir því að efla hagsmuni launafólks í landinu eftir næstu kosningar.