151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

störf þingsins.

[13:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Færeyska ríkisútvarpið hefur greint frá því að það sé búið að kæra skattskil Tindhólms, dótturfélags Samherja, til lögreglu þar í landi og um sé að ræða einn anga Namibíumálsins. Í Noregi greina fjölmiðlar frá því að Samherjamálið í norska bankanum DNB sé orðið að pólitísku hitamáli þar í landi. Við þekkjum umfjöllun namibískra fjölmiðla um meint mútumál og önnur meint lögbrot Samherja þar í landi og við þekkjum fréttir af því að íslenskir ráðherrar hafi beitt færeyska kollega sína óeðlilegum þrýstingi þegar kemur að málefnum tengdum hagsmunum Samherja.

Þessar fréttir af umfjöllun erlendra fjölmiðla færa íslenskir fjölmiðlar okkur til viðbótar við sína eigin umfjöllun og rannsóknarblaðamennsku og fyrir það erum við flest þakklát. Það er sívaxandi þungi í umræðu og gagnrýni á ítök sérhagsmunaafla í íslensku samfélagi. Við í Viðreisn höfum frá upphafi talað fyrir mikilvægi þess að almannahagsmunir ráði för, að hér eigi ekki að vera við völd stjórnvöld sem verja kerfi sem hygla sérhagsmunum, að það sé eitt stærsta verkefni stjórnmálanna að verja almannahagsmuni, m.a. fyrir ágangi sérhagsmuna. Ég hafði forgöngu um það seint á síðasta ári að Alþingi kallaði eftir skýrslu frá sjávarútvegsráðherra um fjárfestingar stærstu útgerðarfyrirtækja landsins í íslenskum atvinnurekstri sem ekki tengjast sjávarútvegi, um ítök útgerðarinnar í íslensku samfélagi. Það fer að halla í fimm mánuði frá því að Alþingi samþykkti skýrslubeiðnina og það bólar ekkert á henni. Hvar er skýrslan? Hvenær verður hún birt? Verður hún birt? Það er risastórt hagsmunamál að þessar upplýsingar liggi skýrt fyrir. Og þegar við bætist að stærstu útgerðarfyrirtækin eru í sérflokki vegna ótímabundins einkaleyfis á nýtingu á fiskveiðiauðlind þjóðarinnar þá liggur fyrir að það er líka stórt almannahagsmunamál, að marggefnu tilefni, að ríkisstjórnin láti af fyrirætlan sinni um að leggja fram bitlaust auðlindaákvæði stjórnarskrár og gangi þess í stað af fullum þunga í það að vernda almannahagsmuni, af því að það er eitt stærsta hlutverk stjórnmála, líka á Íslandi.