151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

störf þingsins.

[13:25]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Það er auðvitað alþekkt að stjórnmálamenn horfa oft ekki ýkja langt fram í tímann, kannski vegna þess að hlutirnir breytast svo hratt í pólitík. Dægurmálin duga þeim oft best og það er erfitt að spá og þá sérstaklega um framtíðina, eins og datt út úr einhverjum. Oft taka umhverfi, venjur og hlutir mjög hröðum breytingum án þess að nokkur taki eftir því. Sumir hlutir koma og fara jafnharðan en aðrir eru komnir til að vera og breyta umhverfinu til frambúðar. Sumar breytingar hafa óvænt áhrif sem kannski enginn bjóst við. Ein er sú hvað notkun á svokölluðum rafskútum hefur aukist hratt undanfarna mánuði. Þó að ég hafi ekki enn tekið prufutúr á einni slíkri er greinilegt að notkun hefur stóraukist á örskömmum tíma. Fólk þýtur fram hjá umferðarteppum á þessum tækjum og það í öllum veðrum, vetur, sumar, vor og haust. Þessar skútur stöðvar ekkert nema kannski rafmagnsleysi og þá er stutt í næstu skútu. Vissulega þarf að huga að öryggi í tengslum við þessi tæki.

En hafa menn hugað að því hvaða áhrif það getur haft til lengri tíma ef notkunin verður meiri og almennari? Hafa menn hugað að því? Hefur til að mynda fólk sem aðhyllist hina fokdýru borgarlínu sem hina einu sönnu framtíðarlausn hugað að þeim möguleika að fólk er einfaldlega fljótara í förum og getur farið allra sinna ferða í mesta þéttbýlinu á slíkum farartækjum, mengunarlaust. Það er á ábyrgð kjörinna fulltrúa að gera eins raunhæfar áætlanir og unnt er og fara vel með skattfé almennings. Samgöngumáti fólks í framtíðinni gæti breyst mjög hratt. Fólk gæti einfaldlega tekið ákvarðanir um nýjan, öflugan og umhverfisvænan samgöngumáta án þess að ráðfæra sig nokkurn skapaðan hlut við stjórnmálamennina.