151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

störf þingsins.

[13:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það var fyrir réttum sjö mánuðum, þann 8. október 2020, sem þessi kona mælti fyrir frumvarpi fyrir hönd Flokks fólksins um að afnema verðtryggingu á neytendalán, sérstaklega núna á óvissutímum í miðjum Covid-faraldri, sérstaklega núna þegar við getum ekki séð neitt annað en að allir ávextir séu til staðar til að rækta hér upp verðbólgu sem við viljum ekki sjá. Ítrekað var ég með fyrirspurnir til hæstv. fjármálaráðherra, ítrekað skrifuðum við greinar, ítrekað ræddum við um það hvaða ástand við gengum í gegnum við efnahagshrunið 2008. Það hefur verið fátt um svör. Einu svörin sem við höfum fengið frá æðstu embættismönnum eru þau að við þurfum ekki að hafa áhyggjur, verðbólgan muni ekki fara af stað. En það er ekki rétt, virðulegi forseti. Hún er að fara af stað. Hún mælist núna 4,6%. Síðast þegar ég var að ræða um verðbólguna mældist hún um 4,3%.

Það er í tísku hér að taka húsnæðisliðinn út úr verðbólgunni þegar tölurnar eiga að líta betur út á blaði. En hvað þýðir það fyrir heimilin í landinu? Hvað þýðir það fyrir fjölskyldurnar í landinu ef við ætlum að láta þennan skell falla á þau eina ferðina enn? Hversu gríðarleg hækkun verður á íbúðalánum fjölskyldnanna? Við höfum verið að ganga í gegnum þvílíka fasteignabólu að það er leitun að tíma þar sem annað eins hefur verið selt af eignum. Þess vegna er kannski orðið tímabært að hið háa Alþingi, með þeim forystusauðum sem hér eru, með fullri virðingu, herra forseti, taki sig saman í andlitinu og reyni að byrgja brunninn áður en við hendum fjölskyldunum ofan í verðbólgubálið. Við tryggjum ekki eftir á. Það er alveg á hreinu. En við gætum núna tryggt fyrir fram, allt annað er bónus fyrir okkur. Ef svo einkennilega vill til að verðbólgan fer ekki á skrið þá erum við heppin. En við hljótum að vilja (Forseti hringir.) tryggja fjölskyldurnar í landinu og setja belti og axlabönd á þær á þeim erfiðu tímum sem við erum að ganga í gegnum.