151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Það eru mörg stór verkefni fram undan. Það er atvinnuleysi sem er gríðarlega stórt mál, það er fjöldi spillingarmála sem þarf að leiða til lykta og við þurfum að koma sérhagsmunapólitík út af þingi. Öðrum sértækum stórmálum þarf líka að huga að og það eru, eins og fyrri ræðumaður benti á, málefni hjúkrunarheimila og ákveðin samfella í þjónustu við aldraða, frá heimaþjónustu til líknarmeðferðar. Það er eitthvað sem hefur verið vitað í fjöldamörg ár, allt þetta kjörtímabil, og er hluti af stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, að skortur á hjúkrunarrýmum veldur auknu álagi á sjúkrahúsin og skerðir lífsgæði aldraðra eins og þar kemur fram.

Stefna stjórnarinnar á að birtast í fjármálaáætlun sem hún gerir ekki. Eins og kom fram á fundi fjárlaganefndar í morgun vantar fjármagn í rekstur hjúkrunarheimilanna. Vissulega hefur ýmislegt verið byggt en ekki hefur verið gert ráð fyrir fjármagni til að reka hjúkrunarheimilin. Það hefur alls ekki dugað til að anna þeirri eftirspurn sem er vegna fjölgunar á eldri borgurum í landinu. Spáð er að fjöldi fólks sem er 80 ára og eldra tvöfaldist nánast á næstu 20 árum. Við sjáum ekki að loforðin sem voru gefin í upphafi kjörtímabilsins til að tækla vandamálið hafi verið efnd. Við sjáum á skýrslunni sem fjárlaganefnd fjallaði um í morgun að við vitum ekki enn hvert vandamálið er. Talað er um að þörf sé á stórum hjúkrunarheimilum með 90 eða fleiri rýmum. Stærðarhagkvæmnin er einfaldlega þannig að ekki borgar sig að reka minni hjúkrunarheimili. Skýrslan segir: Nei, það er enginn munur á stærðarhagkvæmni á milli stærri og minni hjúkrunarheimila. Samt segir skýrslan í öðru orðinu að sé tekið tillit til hjúkrunarþyngdar komi fram stærðarhagkvæmni. (Forseti hringir.) Samt er sagt: Nei, það gerir það ekki. Við í fjárlaganefnd klórum okkur í hausnum. Við vorum að vonast eftir skýrslu sem myndi segja okkur hver staðan væri en við fengum ekki neitt. Enn er þessi málaflokkur í lamasessi.