151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

efnahagsmál.

[13:39]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Blikur eru á lofti í efnahagsmálum. Heimsfaraldur kórónuveirunnar hefur sett mark sitt á stórar atvinnugreinar á borð við ferðaþjónustuna og veitingabransann. Afleidd áhrif ná þó langt út fyrir þessa geira. Landsframleiðsla dróst saman um 6,6% á síðasta ári og í lok síðasta mánaðar voru ríflega 25.000 manns atvinnulaus eða í minnkuðu starfshlutfalli. Á sama tíma og þjóðin glímir við þetta mikla atvinnuleysi hækkar verðbólgan og hefur ekki verið hærri í rúm átta ár. Hvernig verður brugðist við? Hver verða áhrifin á fjárhag heimilanna? Skortur á opinberum fjárfestingum er annar angi efnahagsvandans. Fjárfestingar ríkisins drógust saman um 9,3% á árinu 2020 og 10,8% árið 2019. Þetta á sér stað á sögulegu samdráttarskeiði þar sem þörfin fyrir inngrip af hálfu hins opinbera eru bæði augljós og brýn. Tíminn fyrir fjárfestingar er núna og var reyndar á síðasta ári líka. Hætt er við að seinagangur í að koma framkvæmdum af stað geti haft þveröfug áhrif og auki spennu og þenslu í hagkerfinu á komandi árum. Ætli ríkisstjórnin sér að bregðast við þessu þá er ekki seinna vænna. Óveðursskýin voru búin að hrannast upp í efnahagslífinu í heilt ár áður en faraldurinn skall á án þess að ríkisstjórnin hafi að mínu mati brugðist við með fullnægjandi hætti. Á þetta hefur m.a. fjármálaráð ítrekað bent. Þess vegna spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvernig hann ætli að bregðast við núna.

Staða ríkissjóðs var ekki slæm við upphaf faraldursins. Það er jákvætt, en skuldir ríkisins hafa aukist verulega. Gengisbreytingar einar leiddu á síðasta ári til aukningar upp á 45 milljarða kr. Lánin sem ríkisstjórnin hefur síðan tekið í erlendri mynt ýta undir þessa áhættu ríkissjóðs. Í verstu sviðsmyndinni mun þetta óhjákvæmilega bitna bæði á þjónustu við almenning og ráðstöfunarfé heimilanna, skattahækkun upp á 50 milljarða kr. á næsta kjörtímabili eða með niðurskurði. Með öðrum orðum tekur ríkissjóður áhættu á kostnað lífskjara alls almennings í landinu.

Einhverjum kann að þykja þetta svartagallsraus sem hér er flutt, en horfurnar eru ekki bjartar og því verður að bregðast við af alvöru. Við þurfum að skapa meiri verðmæti í þjóðarbúinu og endurreisa fjárhag ríkissjóðs. Til að hagvöxtur geti verið sjálfbær þarf aukna framleiðni í atvinnulífinu með fjölbreyttum útflutningsgreinum, tækninýjungum og nýsköpun. Það þarf að efla og styðja við sköpunarmátt þjóðarinnar og nýjar verðmætaskapandi atvinnugreinar, of miklar gengissveiflur og háir vextir vinna með beinum hætti gegn þessum markmiðum.

Uppbygging hugvitsgreina er stærsta tækifæri okkar til að sækja fram í þessum efnum. Helstu áskoranirnar eru óstöðugleiki, háir vextir, skortur á langtímastuðningi og framtíðarsýn hins opinbera og of lítil erlend fjárfesting í íslensku atvinnulífi. Ástæða þess vanda er efnahagsumhverfið sem krónan skapar. Hvernig ætlum við sem samfélag að auka stöðugleikann, efla íslenskan útflutning og fjölga tækifærum í íslenskri nýsköpun á meðan við höfum gjaldmiðil sem vinnur gegn þessum sömu markmiðum, eða á meðan ríkisstjórnin hefur sýnt að trúin á gjaldmiðilinn er ekki meiri en svo að hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp sem heimilar Seðlabankanum að grípa til viðamikilla gjaldeyrishafta án aðkomu þingsins? Krónan er vandamál. Vextir á evrusvæðinu og í þeim ríkjum sem hafa tengt gjaldmiðil sinn við gengi evru eru langtum lægri en á Íslandi. Þetta þýðir m.a. að íslenskur almenningur greiðir hærra verð fyrir lán sín en almenningur í löndunum í kringum okkur, fyrirtæki þurfa að standa straum af auknum kostnaði og ríkissjóður tekur ítrekaða áhættu með erlendri lántöku.

Herra forseti. Valkostirnir eru tveir; áframhaldandi dans krónunnar í umhverfi hafta og hárra vaxta eða tillaga Viðreisnar, að leita samkomulags við ráðherra Evrópusambandsins um að tengja krónuna við evru og sameiginlegar gengisvarnir með Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu. Hvorn kostinn ætlar hæstv. fjármálaráðherra að velja?