151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

efnahagsmál.

[13:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir frumkvæðið að þessari umræðu. Þótt vel hafi tekist til í efnahagsmálum í heimsfaraldrinum er alltaf mikilvægt að spyrja áleitinna spurninga og velta fyrir sér næstu skrefum. Fyrst ætla ég að víkja að atvinnuleysinu, því að það dylst engum að það hefur tekið stökk samhliða heimsfaraldri. Það hafa nánast þurrkast út öll störf í ferðaþjónustu, en þar er um að ræða okkar stærstu útflutningsgrein. Og þetta gerist á svipstundu. Mikið áfall. Nú eru hins vegar skýr merki um viðsnúning, en fólki á almennum atvinnuleysisbótum fækkaði um hátt í 1.000 milli janúar og mars og fjöldi á hlutabótum er aðeins brot af því sem mest var. Auglýstum störfum fjölgar nú hratt, einna mest í tækni- og þjónustugeirum. Batinn á sér stað á sama tíma og ferðaþjónustan er enn í lágmarki, sem vekur vonir um enn hraðari viðsnúning þegar greinin tekur við sér. Með kröftugum aðgerðum á sviði ríkisfjármála og lækkun vaxta hefur tekist að viðhalda kaupmætti og örva eftirspurn. Fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar skilaði um 18 milljörðum í fyrra og í ár verða þeir um 30. Þetta kemur til viðbótar annarri fjárfestingu á vegum ríkisins á borð við sögulega há framlög til samgöngumála og byggingar nýs Landspítala. Fjárfestingar ríkisins drógust því ekki saman eins og hv. þingmaður sagði, heldur jukust þær um 5,8% milli ára í fyrra, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Ef við leiðréttum fyrir meðhöndlun Vestmannaeyjaferju í uppgjöri var vöxturinn 12% hjá ríkinu. Ég hygg að hv. þingmaður sé hér að ruglast á tölum fyrir ríki og sveitarfélög samanlagt, en sveitarfélögin hafa ekki fylgt sama ferli og ríkið í þessu.

Þegar vikið er að mögulegum vaxtahækkunum verður að hafa hugfast það umhverfi sem við búum í. Ef vextir hækka frá núverandi stigi hækkar stigið úr lægsta stigi í nútímahagsögu. Það verður þá fyrst og fremst vegna þess góða árangurs sem náðst hefur í viðspyrnu efnahagslífsins. Það hlýtur að vera merki um að við höfum fundið viðspyrnu ef farið er að ræða um að hér sé þörf fyrir vaxtahækkun. Hækkun fasteignaverðs endurspeglar þann árangur sem náðst hefur í þessu efni. Þó má ekki gleyma því að þróunin er langt í frá séríslensk. Þannig hefur fasteignaverð t.d. hækkað um 13% milli ára í Noregi og 12% í evrulandinu Þýskalandi, 12% hækkun. Það er hins vegar mikilvægt að við gefum áfram í á framboðshliðinni. Það má ekki vera framboðsskortur sem keyrir áfram þessa þróun, en ekki er endilega víst að svo sé í augnablikinu. Sveitarfélög þurfa engu að síður að halda áfram að útdeila lóðum og við þurfum að styðja áfram við þá sem þurfa að komast yfir þröskuldinn inn á húsnæðismarkaðinn.

Ég hef ekki langan tíma hér til að fara yfir allt sem snýr að skuldamálum ríkissjóðs, en hérna skiptir auðvitað öllu að við höldum áfram að leggja áherslu á örvun verðmætasköpunar. Við þurfum sömuleiðis að gæta þess að útgjaldavöxturinn á næstu árum verði hægari en vöxtur landsframleiðslunnar. Þannig lokum við fjárlagagatinu. Við hljótum öll að gera okkur grein fyrir því að það skiptir sköpum að tryggja hér áfram efnahagslegan stöðugleika. Lánsfjármögnun ríkissjóðs hefur sjaldan gengið betur en einmitt í dag og með þeirri fjölþættu áætlun sem við höfum kynnt þá hef ég ekki miklar áhyggjur af framtíðinni í því efni.

Til að skjóta stoðum undir sjálfbæran hagvöxt er að sjálfsögðu mikilvægt að við búum vel um framtíðargreinarnar á Íslandi. Við höfum sett mikla fjármuni í rannsóknir og þróun. Samtök iðnaðarins hafa áætlað að rannsóknir og þróun hafi aukist um helming sem hlutfall af landsframleiðslu milli áranna 2018 og 2020. Það er gríðarlegur vöxtur. Áætlað er að stuðningur við rannsóknir og þróun í formi endurgreiðslna meira en tvöfaldist í ár, bæði vegna aukinna umsvifa við rannsóknir og aukins stuðnings.

Við höfum oft rætt hér um kosti og upptöku annars gjaldmiðils. Við þekkjum skýrslur sem gerðar hafa verið um þetta efni, en ég vil meina að við höfum séð vaxandi trúverðugleika peningastefnunnar á undanförnum árum. Það hefur m.a. skapað svigrúmið fyrir lágu vextina. Og svo má auðvitað spyrja: Hvernig ætli okkur hefði gengið að fara í gegnum þessa krísu sem við erum að fara í gegnum núna með gjaldmiðil sem endurspeglaði ekki það áfall sem við urðum fyrir, hlutfallslega mikið áfall í einum þjónustugeira, í ferðaþjónustunni? (Forseti hringir.) Það hefði ekki litið öðruvísi út en við þekkjum annars staðar frá, það hefði verið stóraukið atvinnuleysi. Þá er enginn valkostur að sjá gjaldmiðilinn (Forseti hringir.) gefa aðeins eftir, sem er hans hlutverk við þær aðstæður. Það er ákveðin blessun í því efni að hafa krónuna.