151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

efnahagsmál.

[13:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóni Steindóri Valdimarssyni fyrir þessa sérstöku umræðu og innlegg hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Hv. málshefjandi veltir hér upp veigamiklum spurningum sem vissulega snúa að nútíð og framtíð og birtast sem áskoranir í fjármálaáætlun. Það má kannski segja að það dragi líka fram þá efnahagslega viðkvæmu tíma sem við lifum nú eftir rúmlega árs baráttu við Covid. Atvinnulífið og almenningur hefur sætt ýmiss konar skorðum til athafna og það hefur eðlilega bjagað alla efnahagshringrás. Áherslan síðasta árið hefur verið á að verja hagkerfið, en meginstoðir þess eru heimili og fyrirtæki, og halda hagkerfinu gangandi eins og hægt er á meðan verið er að verja líf og heilsu landsmanna. Þetta hefur kallað fram gríðarlegan hallarekstur á ríkissjóði til að fjármagna aðgerðir til stuðnings við heimilin og fyrirtækin, við þá sem hafa misst vinnuna og fyrirtækin til þess að þau geti staðið þetta af sér og verið tilbúin í viðspyrnu. Við sjáum fram á að viðspyrnan geti hafist í takti við afléttingaráætlun stjórnvalda samhliða bólusetningum. Slíkur hallarekstur, virðulegi forseti, er nauðsynlegur til að ríkissjóður sinni sveiflujöfnunarhlutverki sínu samhliða því að við leggjumst á sveif með peningastefnu Seðlabankans sem hefur brugðist mjög sterkt við, m.a. með lækkun stýrivaxta. Þetta hefur örvað eftirspurn þannig að samdrátturinn á síðasta ári varð minni en ella hefði orðið.

Við getum sagt að við séum inni í hálflokuðu hagkerfi og það myndar verðþrýsting þannig að leikurinn er að breytast mjög hratt. Þess vegna kalla ég þetta viðkvæma tíma. Þetta verður jafnvægislist og þá þurfum við að fara að beita tækjunum með öðrum hætti.