151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

efnahagsmál.

[14:03]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Eitt mikilvægasta verkefni stjórnmálanna á hverjum tíma hlýtur að snúast um lífskjör alls almennings og viðfangsefnið er auðvitað að bæta þau. Þar erum við í dag í samkeppni við aðrar þjóðir og þessi samkeppni er vitaskuld af hinu góða, því að ef vel tekst til fylgja henni tækifæri og ekki síst fyrir ungt fólk. Þess vegna viljum við að framsækin fyrirtæki leiti hingað til lands með starfsemi sína, stuðli að fjölbreytni og um leið fjölbreyttara og sterkara atvinnulífi og fjölgi þannig tækifærum ungs fólks um vinnu. Mikilvægi þessa blasir auðvitað við núna þegar atvinnuleysi er í hæstu hæðum, sem enn sér því miður ekki fyrir endann á. Til þess að vera samkeppnishæf þarf rekstrarumhverfi á Íslandi að vera gott. Þar þurfum við stöðugleika. Við þurfum fyrirsjáanleika og við þurfum greiðan aðgang að fjármagni og fjármagni á hagstæðum kjörum. Við þurfum ekki síst að tryggja þær aðstæður hérlendis að ungt fólk velji að búa áfram á Íslandi. Lykillinn að því að svo verði áfram er að lífskjörin á Íslandi séu samkeppnishæf við lífskjör annarra landa. Til þess að lífskjörin geti raunverulega verið samkeppnishæf þarf markvisst að tryggja að íslenskt hugvit og nýsköpun fái tækifæri til að vaxa. Áfram þarf að byggja upp velferðarkerfið, tryggja aðgang að fyrsta flokks menntun og síðast en ekki síst að gæta þess að hér sé auðvelt að koma sér þaki yfir höfuðið og hefja fjölskyldulíf.

En óstöðugleiki í efnahagsmálum vinnur gegn öllum þessum þáttum, gengissveiflur og háir vextir skerða samkeppnishæfni Íslands. Þetta er einfaldlega staðreynd. Þessar sveiflur valda ungu fólki ekki síst miklum vanda við kaup á fyrstu íbúð og þar eru aðstæður ungs fólks á Íslandi einfaldlega þyngri en annars staðar vegna þessara séríslensku aðstæðna. Hvernig getum við (Forseti hringir.) bætt raunverulega afkomu fólks og fyrirtækja hér á landi þegar gjaldmiðill okkar, (Forseti hringir.) með sínum aukaverkunum, ýtir undir sveiflur og viðheldur háum vöxtum? Stutta svarið er að það getum við ekki.