151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

efnahagsmál.

[14:06]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Í upphafi er rétt að taka fram að það þarf ekki að vera merki um heilbrigt efnahagslíf að vextir séu mjög lágir, jafnvel neikvæðir. Það er ekki merki um dínamískt atvinnulíf, heldur getur það þvert á móti verið sjúkleikaeinkenni. Ég held að það sé vert að hafa í huga þegar menn ræða um íslensku krónuna og hvort draumur einhverra þingmanna hér um að taka upp evru eigi að rætast, að horfa til þess að varðmaður íslensku krónunnar er Seðlabanki Íslands. Það er merkilegt að horfa til þess að traust á Seðlabanka Íslands hefur tvöfaldast á tveimur árum og er núna 62% samkvæmt mælingum Gallups. Árið 2011 var þetta traust 20%, herra forseti. Það er vísbending um það að íslenska þjóðin treystir íslensku krónunni.

Núna í aðdraganda kosninga er alveg ljóst að við eigum og þurfum að svara ýmsum spurningum gagnvart kjósendum. Við þurfum að svara því með hvaða hætti við ætlum að byggja upp blómlegt atvinnulíf og tryggja að hér verði til þúsundir starfa á komandi árum. Í þessum sal hefur verið kallað eftir því á ýmsum tímum að fjölga starfsmönnum ríkisins. Við í Sjálfstæðisflokknum leggjum áherslu á að viðskiptahagkerfinu verði búinn þannig jarðvegur að það geti blómstrað og þar verði störfin til vegna þess að þar verða verðmætin til sem standa undir velferð þessarar þjóðar. Við segjum: Við ætlum að auka skilvirkni í ríkisrekstri. Við ætlum að tryggja það að þar sem við á, m.a. í heilbrigðiskerfinu, sé samvinna einkaaðila, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna og opinberra fyrirtækja, tryggð, íslenskum almenningi til heilla.