151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

efnahagsmál.

[14:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára er megináherslan á að stöðva hlutfallslegan vöxt skuldasöfnunar, en minni metnaður lagður í arðbærar fjárfestingar, opinbera þjónustu, öflugri almannatryggingar, stuðning við fólk sem misst hefur vinnuna eða stuðning við barnafjölskyldur. Ef spár ganga eftir verða um 10.000 manns án atvinnu hér á landi eftir fimm ár. Í stað þess að útfæra frekari aðgerðir sem einhverju skipta til að fleyta fólki, fyrirtækjum og hagkerfinu í heild í gegnum efnahagsvandann, leggur ríkisstjórnin ofuráherslu á að miða við ákveðið skuldahlutfall árið 2025 með tilheyrandi niðurskurði á ríkisútgjöldum. Í stað þess að beita ríkisfjármálunum til þess að jafna niðursveifluna er hún ýkt með hugmyndum ríkisstjórnarinnar um niðurskurð og skattahækkanir strax eftir eitt og hálft ár þegar atvinnuleysi er enn um 6–7% samkvæmt þeim spám sem liggja undir fjármálaáætluninni. Auk þessarar fjármálareglu sem ríkisstjórnin hefur sett sér sjálf eiga fjármálareglur laga um opinber fjármál að taka gildi árið 2026. Öll önnur ríki sem við berum okkur saman við hafa vikið fjármálareglum til hliðar nú á óvissutímum og hafa ekki sett sér nýjar, líkt og íslenska ríkisstjórnin hefur gert í skammsýni í efnahagslægð. Mikilvægir innviðir munu líða fyrir slíka hagstjórn í langan tíma með tilheyrandi kostnaði, nái stefna ríkisstjórnarinnar fram að ganga. Innviðaskuldir munu hlaðast upp, hvort sem er í vega- og flutningskerfum eða í heilbrigðis- og velferðarkerfinu.

Samfylkingin vill skapa frið um hvernig skipta á tekjum og afla þeirra, dreifa byrðum og hverfa frá stefnu ójafnaðar í heimsfaraldri.