151. löggjafarþing — 89. fundur,  4. maí 2021.

barnalög.

204. mál
[14:58]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég fagna þessu máli sem lýtur að því að tryggja réttindi foreldra sem hafa breytt um skráningu kyns og gera þá jafnsetta öðrum foreldrum. Ég styð þetta mál en ég get ekki látið hjá líða að nefna að það hefur verið gagnrýnt að ekki var gengið lengra í að breyta barnalögum þannig að þau samræmist veruleika hinsegin fólks og fjölskyldum þeirra, þ.e. að pör og hjón verði sjálfkrafa skráð sem foreldrar barns síns, óháð kyni, kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu án þess að þurfa að sækja um það með vottorði. Ég hef áður lýst þeim veruleika mínum, sem er 20 ára gamall, þar sem ég fékk félagsþjónustuna inn á heimilið — sem nota bene var heimili konu minnar líka vegna þess að það er það sem hjón gera, þau búa saman á heimilinu yfirleitt — en félagsþjónustan mætti til að taka út heimili konu minnar til að athuga hvort hún væri hæf til að stjúpættleiða börnin okkar. Það eru 20 ár liðin síðan og við erum blessunarlega komin svo mikið lengra. En það er tækifæri til að ganga alla leið og ég hvet okkur öll sem hér erum til að drífa af þessa endurskoðun á barnalögum og gera þau kynhlutlaus og tryggja jöfn réttindi okkar allra og barnanna okkar.